Vorum alveg ótrúlega daprir

Gunnar Þorsteinsson var afar hreinskilinn í leikslok.
Gunnar Þorsteinsson var afar hreinskilinn í leikslok. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Við vorum alveg ótrúlega daprir í fyrri hálfleik og við létum keyra yfir okkur,“ sagði hreinskilinn Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, í samtali við mbl.is eftir 4:0-tap fyrir Val á útivelli í Pepsi-deild karla í fótbolta. 

Hann hélt áfram og sagði að Grindavík hafi hreinlega ekki átt möguleika í dag. 

„Þeir voru aggresívir og reyndu að kæfa alla mótspyrnu í byrjun og það gekk mjög vel. Við vorum mjög flatir og gerðum algjör byrjendamistök í fyrsta markinu. Maður sér 3-4 sekúndum áður en þetta gerðist að boltinn var að koma inn fyrir, en við snerum vitlaust og vorum seinir.“

„Þeir eru búnir að skora 15-20 sinnum síðasta árið alveg eins mark og annað markið, þar sem fyrirgjöfin kom frá endalínu. Við vorum búnir að undirbúa þetta mjög vel en klikkuðum samt á því. Það stóð ekki steinn yfir steini.“

„Við getum alveg reynt að ljúga að okkur að við höfum verið flottir í seinni og skapað færi en á meðan við skoruðum ekki mark, þá fóru þeir áfram á hlutlausum og voru farnir að hugsa um næsta leik. Af því við náðum ekki að skora úr þessum fáu færum í seinni var þetta aldrei spurning.“

Gunnar segir að Grindvíkingar klikki þegar leikirnir eru mikilvægari. 

„Það hefur gengið ágætlega á móti þeim og við erum eina liðið sem hefur unnið þá í sumar. Við tókum líka heimaleikinn við þá í fyrra en þegar við erum undir pressu og fáum tækifæri til að hrifsa eitthvað til okkar höfum við verið að klikka á því. Kannski erum við ekki bara komnir lengra en þetta.“

Þrátt fyrir tapið í dag segir Gunnar að markmiðið sé að ná í Evrópusæti. 

„Við erum bara einu stigi frá fjórða sætinu svo það er ekki spurning. Við munum berjast þangað til í síðustu umferð, það eru bara sex leikir eftir. Frammistaðan hefur heilt yfir verið góð fyrir utan þennan leik og á móti ÍBV. Við höldum okkar striki,“ sagði Gunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert