Toppliðin öll með sigra

Þróttarar fagna fyrsta marki sínu gegn Magna í Laugardalnum í …
Þróttarar fagna fyrsta marki sínu gegn Magna í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Valli

HK, Þór og Þróttur úr Reykjavík unnu leiki sína í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld og eru öll áfram á fullri ferð í toppbaráttu deildarinnar.

Þór vann 5:2-sigur á ÍR á Akureyri þar sem þeir Álvaro Montejo og Nacho Gil skoruðu hvor sitt markið fyrir Þórsara í fyrri hálfleik. Báðir voru aftur á ferð með sitt markið hvor, 4:0, áður en Már Viðarsson náði loks að skora  fyrir gestina á 73. mínútu. Axel  Sigurðsson minnkaði svo aftur muninn fyrir ÍR-inga á 78. mínútu, 4:2, áður en Jakob Snær Árnason innsiglaði sigur Þórsara á 90. mínútu og lokatölur því 5:2. Þórsarar eru komnir í þriðja sæti deildarinnar með 33 stig en ÍR er sem fyrr í áttunda sætinu með 16 stig.

Þá tók Leiknir Reykjavík á móti HK í Breiðholtinu þar sem gestirnir fóru með sigur af hólmi, 2:0. Zeiko Lewis kom HK yfir á 28. mínútu og Bjarki Aðalsteinsson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 33. mínútu og lokatölur í Breiðholtinu því 2:0 fyrir HK. Leiknir Reykjavík er áfram í níunda sæti deildarinnar með 15 stig en HK er í öðru sætinu með 35 stig, einu stigi minna en ÍA.

Þróttur Reykjavík vann svo 5:3-sigur á Magna í Laugardalnum þar sem að Viktor Jónsson skoraði tvívegis fyrir heimamenn, snemma leiks. Gunnar Örvar Stefánsson minnkaði muninn fyrir Magna á 33. mínútu áður Jón Alfreð Sigurðsson skoraði sjálfsmark á 44. mínútu og staðan því orðin 4:1 fyrir Þróttara.

Kristinn Þór Rósbergsson lagaði stöðuna fyrir Magna á 45. mínútu áður en Viktor Jónsson fullkomnaði þrennuna á 50. mínútu. Gunnar Örvar var svo aftur á ferðinni á 61. mínútu en lengra komust Magnamenn ekki og lokatölur 5:3 í Laugardalnum. Þróttarar eru í fimmta sæti deildarinnar með 29 stig en Magni er á botni deildarinnar með 12 stig, jafnmörg stig og Selfoss sem gerði jafntefli við Víking Ólafsvík í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert