Sigríður Lára til norsku meistaranna

Sigríður Lára Garðarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sigríður Lára Garðarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Landsliðskonan í knattspyrnu, Sigríður Lára Garðarsdóttir, er gengin til liðs við Lillestrøm í Noregi frá ÍBV. Þetta var tilkynnt á heimasíðu ÍBV í morgun. Samningurinn gildir út árið en verður eftir það endurskoðaður.

Lillestrøm er í efsta sæti norsku deildarinnar og er á góðri leið með að tryggja sér meistaratitilinn þegar 14 umferðir eru búnar af 22 en liðið er með 12 stiga forskot á Klepp sem er í öðru sæti. Sigríður Lára flaug í gær til Noregs og skrifaði í kjölfarið undir samning við félagið.

Lillestrøm hefur orðið norskur meistari fjögur ár í röð og ekki tapað leik á leiktíðinni. Þá leikur liðið í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í haust.

Sigríður Lára, sem er á 24. aldursári, á 13 leiki fyrir Íslands hönd og hefur verið í hópi bestu leikmanna Pepsi-deildar kvenna undanfarin ár.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert