„Það var helíum í þessu andskotans flaggi“

Ólafur Kristjánsson þungur á brún í Garðabænum í kvöld.
Ólafur Kristjánsson þungur á brún í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Valli

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var hundfúll þegar mbl.is tók hann tali eftir að lið hans féll úr leik í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld. FH tapaði þá 2:0 fyrir Stjörnunni og möguleikar liðsins á titli á tímabilinu eru svo til úr sögunni.

„Það eru mikil vonbrigði að tapa þessum leik. Við vorum þéttir í fyrri hálfleik og gáfum engin færi á okkur. Við fengum tvö frábær færi, skutum í slá og stöng, og mér fannst við vera grimmari. Það var pirringur í seinni hálfleik að þurfa að elta þetta mark sem þeir skora úr föstu leikatriði. Þú getur skrifað svolítið í sögu okkar í sumar að við nýtum ekki færi og fáum mörk á okkur í föstum leikatriðum. Svo eru ákvarðanir sem falla ekki með okkur. Þegar lið eru þar sem við erum núna þá þarf að fá þessi atvik með þér,“ sagði Ólafur.

Hann var sérstaklega ósáttur með annan aðstoðardómara leiksins í fyrri hálfleik þegar hann flaggaði rangstöðu og talaði sannarlega hreint út um atvikið.

„Ég er gríðarlega ósáttur þegar Jakúp Thomsen er að sleppa í gegn og það er metið sem rangstæða. Ég hef heyrt um eitthvert helvítis þungt flagg í deildinni í sumar en það var helíum í þessu andskotans flaggi. Ég er mjög ósáttur við að hann [aðstoðardómarinn] skuli hafa flaggað þarna.“

FH-ingar hafa valdið vonbrigðum í sumar miðað við væntingarnar sem gerðar eru til liðsins. FH er í fimmta sæti deildarinnar, ellefu stigum frá toppnum, og var þessum leik af mörgum stillt upp sem svo að tímabilið væri undir.

„Það er mjög spennandi að stilla þessum leik þannig upp og það er allt í lagi að gera það. Það er ansi langt í titil í deildinni og við erum svolítið fangaðir af þeim væntingum sem alltaf eru hjá FH. Þetta er ný staða að vera ekki í þessari toppbaráttu og því eru vonbrigðin enn þá meiri. En þetta er staða sem við þurfum að takast á við, við sem elskum þetta félag. Við þurfum að bretta upp ermar, setja á okkur vinnuhanskana og krafla okkur upp úr þessu.“

Veit að menn tala saman í bakherbergjum

Ertu eitthvað hræddur um þína stöðu eða heldurðu að þú fáir þolinmæði til þess að byggja upp liðið?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég er ráðinn til þess en svo er það alltaf þannig að í bakherbergjum er talað saman. Ég veit að stjórnin í FH fór í ákveðið verkefni núna og réð mig til þess. Ég er hvergi banginn við það. Það er erfitt þegar svona þungt skip eins og FH er ekki á réttum kúrs en þá þurfa menn að hafa pung.“

En hvað segir Ólafur um framhaldið og það sem eftir er af tímabilinu?

„Við erum ekki búnir að vinna í svolítinn tíma og það er fyrsta skref. Við erum í baráttu við KR um fjórða sætið sýnist mér og svo er kannski möguleiki að hoppa einu sæti ofar. En forsenda fyrir því er að skora mörk og fá kannski eitt eða tvö vafaatriði með sér. Þá vinnum við fótboltaleik og getum litið frekar á hver niðurstaðan verður,“ sagði Ólafur Kristjánsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert