„Manni líður einfaldlega illa“

Ejub Purisevic.
Ejub Purisevic. mbl.is/Valli

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, var afar svekktur þegar mbl.is tók hann tali eftir að lið hans féll úr leik í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu gegn Breiðabliki í kvöld. Ólafsvíkingar voru vart nær því að komast áfram, en Blikar jöfnuðu á lokasekúndu uppbótartíma framlengingar og unnu svo í vítaspyrnukeppni.

„Manni líður bara einfaldlega illa, því mér fannst leikurinn vera unninn. Það benti ekkert til þess að Breiðablik myndi jafna þennan leik og það er mjög sárt að fá á sig þetta mark. Breiðablik átti bókstaflega ekkert svar allan tímann og við létum þá spila eins og við vildum. Ég var mjög ánægður með mitt lið og skipulagið gegn liði sem er í efsta sæti í úrvalsdeildinni. Það hefði verið betra ef leiktíminn hefði náð að klárast. Kannski var hann búinn?“ velti Ejub fyrir sér við blaðamann.

Ólafsvíkingar voru mun minna með boltann í leiknum en voru afskaplega þéttir til baka. Þeir nýttu sér svo tvö föst leikatriði til þess að komast tvívegis yfir, fyrst í venjulegum leiktíma og svo í framlengingu, og má því segja að planið hafi gengið eftir?

„Ef maður horfir taktískt á þetta þá fannst mér þetta ganga nokkuð fullkomlega upp hjá mér. Mörkin sem Breiðablik skora, sérstaklega fyrra markið, komu eftir þvílík einstaklingsmistök. Svo áttu þeir bara fjórar, fimm aukaspyrnur fyrir utan teig þannig að ég er rosalega ánægður með mitt lið hvað varðar framlag og skipulag,“ sagði Ejub.

Það er óhætt að segja að það sé nokkurt kjaftshögg að tapa á þennan hátt. Hvernig heldur Ejub að það muni ganga að rífa menn upp eftir svona tap?

„Við sjáum bara til. Auðvitað er vont að tapa svona en þetta ár hefur hvort sem er verið ótrúlegt. Í byrjun móts náði ég rétt í 11 leikmenn í hóp og var að nota menn sem hafa ekki spilað í einhver ár. Við vorum með áhyggjur hvort við næðum að halda okkur í deildinni [1. deild] en svo náðum við að blanda okkur í toppbaráttuna í deildinni og komumst svona langt í bikarnum.

Þetta er bara ein hindrun enn sem við munum komast yfir. Við vorum ekki með neitt plan nema að byggja upp lið sem hægt væri að byggja ofan á næstu ár. Allt hitt er bónus. En hvað varðar að komast yfir þennan leik mun það koma í ljós, en ég mun gera mitt,“ sagði hinn geðþekki Ejub Purisevic að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert