Reynslan skiptir máli

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er reynslumikil í bikarúrslitunum.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er reynslumikil í bikarúrslitunum.

„Þetta er stærsti leikur sumarsins og við erum spenntar að mæta aftur á Laugardalsvöllinn,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í viðtali við mbl.is á blaðamannafundi sem blásið var til vegna úrslitaleiks Stjörnunnar og Breiðabliks í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu sem fer fram annað kvöld klukkan 19:15 á Laugardalsvelli. 

Ásgerður, eða Adda eins og hún er yfirleitt kölluð, er eldri en tvívetra þegar kemur að bikarúrslitaleikjum en frá árinu 2012 hefur hún spilað fjórum sinnum til úrslita. Þetta verður því hennar fimmti úrslitaleikur á sjö árum. Spurð hver lykillinn sé að því að hitta á góðan dag í bikarúrslitum segir Adda að reynslan geti klárlega hjálpað til í þeim efnum:

„Reynslan skiptir máli frá mínum bæjardyrum séð. Vinnusemi og agi skiptir líka máli. Svo er það bara gamla góða að hitta á sinn dag og halda einbeitingu allan leikinn. Við kynntumst því í fyrra að við misstum einbeitingu í fimm mínútur og þurftum að fara í framlengingu.“

Gengi Stjörnunnar í deildinni hefur ekki verið eins gott og vonir stóðu til fyrir tímabilið. Liðið er í fjórða sæti deildarinnar og er 9 stigum á eftir Breiðabliki sem er á toppnum. Það er því fjarlægur draumur að Stjarnan verði Íslandsmeistarar þetta árið og því eru bikarúrslitin að öllum líkindum eina tækifæri liðsins til þess að vina titil. Spurð hvort það setti aukna pressu á liðið sagðist Adda svo ekki vera:

„Nei. Við setjum alltaf pressu á okkur sjálfar að vinna titla. Þetta er búið að vera vonbrigðasumar í deildinni og okkar stysta leið er bikarinn og við ætlum okkur að sjálfsögðu titilinn. En þetta er ekkert öðruvísi ef við værum í betri stöðu í deildinni. Við ætlum okkur alltaf sigurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert