„Verðum ekki mikið nær en þetta“

Kristinn Freyr í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld.
Kristinn Freyr í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Valgarður Gíslason

Kristinn Freyr Sigurðsson var afskaplega svekktur þegar mbl.is greip hann skömmu eftir að flautað var til leiksloka hjá Val og Sheriff í síðari leik liðanna í 3. umferð Evrópudeildarinnar á Hlíðarenda í kvöld. Niðurstaðan 2:2 í leikjunum tveimur og mark á útivelli skilar Sheriff áfram í 4. umferðina. 

„Við vorum ansi nálægt því í lokin að skora markið sem hefði komið okkur áfram en því miður gerðist það ekki. Við verðum ekki mikið nær því en þetta,“ sagði Kristinn og vísar þar til þess að Valsmenn áttu fjórar marktilraunir í uppbótartíma leiksins í kvöld eftir að liðið komst 2:1 yfir. Kristinn lagði upp mark fyrir Hauk Pál Sigurðsson í fyrri hálfleik og hafði Valur yfir 1:0 að honum loknum. Sheriff jafnaði hins vegar á 68. mínútu og komst þá í kjörstöðu eftir að hafa komið til landsins með 1:0 forskot frá Moldóvu. 

„Ég held að við getum sjálfum okkur um kennt þar sem við fengum á okkur ansi aulalegt mark í kvöld. Það var súrt og eftir það var þetta svolítil brekka. Svona fór þetta og lítið annað við þessu að segja,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert