Ætlum okkur klárlega að vinna Wolfsburg

Halldór Jón Sigurðsson, Donni.
Halldór Jón Sigurðsson, Donni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, var að vonum ánægður með sitt lið eftir 9:1 burst gegn FH í Pepsi-deild kvenna í dag.

„Já ég er mjög ánægður með sigurinn, fá þrjú stig og bæta markatöluna enn þá betur. Við vorum með bestu markatöluna fyrir leikinn og erum í enn þá betri málum núna. Ég er mjög ánægður með að stelpurnar héldu áfram því það hefði verið auðvelt að pakka saman og hætta en þær héldu áfram og bættu við mörkum.“

Þrátt fyrir yfirburði liðsins fékk Þór/KA á sig mark undir lokin. Donni var ekki sáttur með það:

„Nei ég var grautfúll, við viljum ekki fá á okkur mörk og það er algjör óþarfi að fá á okkur mörk þegar við erum að vinna 9:0. En kredit á FH, þær héldu áfram og skorðuðu mark. Í fyrri hálfleik fannst mér FH-liðið bara gott. Þær settu á okkur góða pressu og hefðu getað skorað en svo fannst mér þær brotna í seinni hálfleiknum.“

„Ég var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn, það var klárlega þreyta í liðinu, við erum að ferðast og spila þrjá leiki yfir stuttan tíma og mér fannst aðeins dauft yfir liðinu. Við ræddum það aðeins í hálfleik. Svo töluðum við um svæði sem við þurftum að komast í. Ég var mjög ánægður með viðbrögð stelpnanna.“

Eftir leikinn er Þór/KA komið á topp deildarinnar, hvaða tilfinningu hefur Donni fyrir framhaldinu?

„Mjög góða, við vinnum þetta mót, við ætlum að vinna það. Það er ekkert sérlega flókið við ætlum að vinna alla leiki sem eftir eru og þá verðum við meistarar og hérna og við þurfum ekki að treysta á neinn nema okkur.“

Dregið var í 32 liða úrslit Meistaradeildarinnar í dag og þar kom í ljós að Þór/KA mætir Wolfsburg. Aðspurður um það sagði Donni:

„Mér líst vel á það og ég er ótrúlega spenntur fyrir því verkefni. Við ætlum okkur klárlega að vinna þær. Ég sé enga ástæðu fyrir því að reyna það ekki. Vissulega er Wolfsburg annað besta lið í heiminum svo það gæti orðið svolítið erfitt verkefni en við ætlum bara að leggja allt í það og sjá hvað gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert