Líkurnar ekki með okkur

Orri Þórðarson á hliðarlínunni í dag.
Orri Þórðarson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Orri Þórðarson, þjálfari FH, var daufur í bragði eftir 9:1 tap gegn Þór/KA í Pepsi-deild kvenna nú í dag: „Það er fátt hægt að segja. Ég bjóst ekki við þessu eftir nokkuð góðan fyrri hálfleik. Mér fannst að þrátt fyrir að þær hafi kannski legið aðeins meira á okkur væru þær ekki að fá nein færi og við áttum skotfæri. Þannig að ég var frekar svekktur að vera undir í hálfleik.“

„Við ætluðum að herja á þær í seinni hálfleik og koma okkur inn í leikinn. En fengum á okkur mark á fyrstu eða annarri mínútu seinni hálfleiks og stuttu seinna þurftum við að gera breytingar á liðinu vegna meiðsla og mér fannst mér bara bæði missa hausinn og taktinn.

Og þegar það gerist á móti svona góðu liði eins og Þór/KA, þá er voðinn vís og þær héldu bara markaveislu hérna og það er mjög sárt og ekki boðlegt.

Eftir leikinn er FH-liðið í slæmri stöðu. Fjórum stigum frá toppnum og leikir við Breiðablik, Val og Stjörnuna fram undan. Hvernig metur Orri framhaldið?

„Auðvitað er alltaf hundleiðinlegt að tapa svona en ég veit að stelpurnar munu rísa upp eftir þetta. Við þurfum að reyna að læra það sem hægt er að læra eftir leik en ég held að það þýði samt ekkert að fara að dvelja eitthvað við leikinn. Við höfum bara ekki tíma. Það er bara næsti leikur. Það er nokkuð ljóst að ef við höldum okkur uppi verður það ekki á markatölu.“

En telur Orri að liðið hafi trú á því að geta haldið sér uppi ?

„Að sjálfsögðu. Auðvitað eru líkurnar ekki með okkur. En meðan það er von þá er von. Ég held einhvern veginn fyrir alla leiki að ég sé að fara vinna þá en það verður bara að vera þannig áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert