„Þetta er geggjuð tilfinning“

Breiðablik er bikarmeistari árið 2018. Agla María Albertsdóttir (7) fagnar …
Breiðablik er bikarmeistari árið 2018. Agla María Albertsdóttir (7) fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld. mbl.is/Valli

Agla María Albertsdóttir átti stórgóðan leik og lagði upp bæði mörkin þegar Breiðablik vann 2:1 sigur á Stjörnunni og tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld. Mjólkurbikarinn heitir keppnin í ár og voru sigurvegararnir baðaðir í mjólk þegar bikarinn fór á loft.

„Þetta er ógeðsleg lykt, en annars allt í lagi!“ sagði Agla María og hló þegar mbl.is tók hana tali í fagnaðarlátunum. „Við vorum 2:0 yfir þar til alveg í lokin, en þær skora þetta mark og þá er leikurinn opinn. Mér fannst við allan tímann öruggar að klára þetta. Þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði Agla María.

Hún spilaði með Stjörnunni í fyrra og tapaði með liðinu í bikarúrslitum eftir framlengdan leik gegn ÍBV. Hún fagnaði því innilega í kvöld eftir sárar minningar frá því í fyrra.

„Já þetta var ömurlegt hérna í fyrra, en gott að klára þetta núna,“ sagði Agla María, en vildi ekki meina að það væri eitthvað sérstaklega sætt að vinna Stjörnuna nú í úrslitum. „Í raun og veru skiptir engu máli á móti hverjum það er – maður vill alltaf verða bikarmeistari,“ sagði Agla María.

Blikar þurfa þó að koma sér fljótt niður á jörðina því liðið er í harðri toppbaráttu í Pepsi-deildinni og stefnir á að innsigla tvennuna síðar í haust.

„Klárlega. Við fögnum í kvöld en síðan er það bara næsti leikur,“ sagði Agla María Albertsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert