Þurfum að smyrja gæðum ofan á baráttuna

Eysteinn Húni Hauksson fylgist með sínum mönnum í dag.
Eysteinn Húni Hauksson fylgist með sínum mönnum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eysteinn Hauksson, þjálfari Keflvíkinga, kom með góða veðrið með sér til Vestmannaeyja í dag þegar liðið mætti ÍBV á Hásteinsvelli. Það dugði þó ekki til því að Sigurður Arnar Magnússon, miðvörður Eyjamanna, kom knettinum í netið á 4. mínútu leiksins og reyndist það eina mark leiksins.

„Ég er ekki sáttur, mér fannst tækifæri hérna til að taka stig eða fleiri,“ sagði Eysteinn en Kristján Guðmundsson talaði mikið um baráttu Keflvíkinga í leiknum og að þeir ættu eftir að taka einn eða tvo sigra það sem eftir lifir í deildinni.

„Það er gaman að heyra það, en mér fannst samt á köflum vanta skerpuna hjá okkur, að vera mættir á þá staði sem við áttum að vera á, fyrr. Það var vilji og barátta, það er það sem við höfum en við þurfum að smyrja gæðum ofan á þetta, sérstaklega á síðasta þriðjungnum. Ég er ekkert að skjóta á strákana með það, þetta á eftir að koma síðar.“

Vandræði Keflvíkinga kristölluðust kannski í leiknum í dag þar sem Keflvíkingar fengu snemma á sig mark og þurftu því nauðsynlega mark, en Keflvíkingar hafa bara skorað eitt slíkt á síðustu 720 mínútum sem liðið hefur spilað.

„Það er alveg rétt og það virðist allt vera þannig núna, að ef maður talar um að lið hafi fallið á því að mæta sofandi til leiks hérna, þá fær maður það beint í andlitið. Það eina sem við getum gert er að stíga á bensíngjöfina, halda áfram og þjappa okkur saman. Það er mikilvægt að þeir ungu strákar sem eru að spila setji hvern einasta leik í reynslubankann, svo að þetta fari ekki til spillis. Þó að það gangi skelfilega þá nýti menn alla vega tímann til að læra, svo þegar velgengnin kemur þá munu menn læsa klónum í hana.“

Keflvíkingar voru einungis með tvo erlenda leikmenn í liðinu í dag, hinir leikmennirnir eru ýmist Keflvíkingar eða leikmenn sem koma frá öðrum liðum, flest ungir leikmenn. Er það markmiðið að nota núna leikmenn sem geta hjálpað liðinu á næstu árum?

„Bæði og, ég vildi auðvitað vinna þennan leik, ég vel liðið sem ég tel líklegast til að vinna leikinn. Raunsætt litið á hlutina þá nýtum við þessa leiki til að framtíðarleikmenn okkar fái reynslu til að búa að, það er samt ekkert þannig að við séum að veikja liðið, þeir eru alveg góðir. Það er gríðarlega mikilvægt að þeir séu meðvitað að læra af því sem við erum að ganga í gegnum núna.“

Lasse Rise var ekki í leikmannahópnum í dag, hvers vegna?

„Ég taldi hann ekki hafa þá kosti í þá baráttu sem við vorum að fara í í dag. Það er ekkert flóknara en það.“

Dagur Dan Þórhallsson féll í teignum seint í leiknum, Eysteinn og Ómar aðstoðarmaður hans voru ekki sáttir með það atvik en fengu að launum skammir frá fjórða dómara leiksins.

„Þið heyrðuð það bara þar, mér fannst þetta þannig að Eyjamaður lét aðeins plata sig og hann komst fyrir boltann, en ég er ekki með hæga endursýningu af þessu. Fyrir mér var þetta augljóst og ég sagði við dómarann eftir leik að þú dæmir víti á þetta, eins og staðan er og sumarið okkar hefur verið. Ég veit það ekki, en mér fannst þetta púra víti og ég held að þið hafið heyrt það eins og allir hérna.“

Eysteinn var í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum og þjálfaði nokkra leikmenn sem voru í leikmannahópi ÍBV í dag, tveir af þeim tóku þátt í leiknum, Breki Ómarsson og Sigurður Arnar Magnússon, er Eysteinn ánægður með að sjá þá spila?

„Ég er mjög ánægður með það, en ég held að það sé nú meira þeim sjálfum að þakka heldur en mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert