Það er núna sem reynir á

Davíð Þór Viðarsson er ekki sáttur við tímabil FH til …
Davíð Þór Viðarsson er ekki sáttur við tímabil FH til þessa. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

„Við hefðum átt að klára þetta í fyrri hálfleik. Við vorum með boltann allan fyrri hálfleikinn og vorum með þvílíka yfirburði en við náðum ekki að nýta okkur það meira en að skora eitt mark,“ sagði svekktur Davíð Þór Viðarson, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is í kvöld. 

FH gerði 1:1-jafntefli við Fylki á útivelli í Pepsi-deild karla í fótbolta og var Davíð svekktur, enda fannst honum FH betra liðið í leiknum. 

„Við fáum á okkur mark í seinni hálfleik því við mættum ekki til leiks og það er dapurt. Við fáum færi til að klára leikinn en markmaðurinn var með svakalega markvörslu frá Lenny [Steven Lennon] og mér fannst við miklu betra liðið í þessum leik en það er ekki nóg, þú þarft að klára leikina og þetta er ekki í fyrsta skipti sem við erum miklu betri en náum ekki að klára leiki.“

Það hefur lítið gengið hjá FH á tímabilinu. Liðið er fallið úr leik í Evrópukeppni, bikarnum og baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Auk þess hefur FH aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum í öllum keppnum. 

„Það er núna sem reynir á, þegar það bjátar á. Svona reynt lið á ekki að láta þetta hafa áhrif, með því að sigra færðu meira sjálfstraust og þetta hafði kannski óbeint áhrif, en við eigum að vera nógu góðir leikmenn til að skoða þetta og það getur enginn snúið þessu við nema við.“

„Við erum óánægðir með gengið og við ætluðum okkur lengra í Evrópu og í bikarkeppninni og við ætluðum okkur að vera í séns í að vinna Íslandsmeistaratitilinn á þessum tímapunkti svo þetta eru vonbrigði. Það er eins og það er, maður nær ekki alltaf markmiðunum sínum. Við erum að berjast um þetta Evrópusæti og við þurfum að gefa því séns. Það væri slys að missa af því,“ sagði Davíð Þór Viðarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert