Jafntefli í svakalegum fallslag

Birnir Snær Ingason rekur knöttinn áfram í Grafarvoginum í kvöld. …
Birnir Snær Ingason rekur knöttinn áfram í Grafarvoginum í kvöld. Víkingurinn Rick Ten Voorde sækir að honum. mbl.is/Hari

Fjölnir og Víkingur R. gerðu 2:2-jafntefli í bráðskemmtilegum fallslag í Grafarvogi í kvöld í 17. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Fjölnir jafnaði metin á 90. mínútu.

Fjölnismenn voru mun beittari aðilinn í fyrri hálfleiknum og voru 1:0 yfir að honum loknum. Ægir Jarl Jónasson og Birnir Snær Ingason voru sérstaklega ógnandi gegn Víkingsvörninni, sem var án miðvarðanna Gunnlaugs Fannars Guðmundssonar, sem tók út leikbann, og Sölva Geirs Ottesen sem hefur verið meiddur. Ægir var nálægt því að skora strax á 10. mínútu þegar hann teygði sig í góða fyrirgjöf Guðmundar Karls Guðmundssonar en boltinn fór í stöngina. Birnir átti fínar tilraunir og Þórir Guðjónsson var einnig hættulegur í hornspyrnum Fjölnismanna sem alltaf virtust enda á enni hans.

Það var þó ekki fyrr en á 37. mínútu sem Fjölnir komst yfir en Ægir slapp þá aleinn gegn markverði, þegar Víkingsvörnin var komin alveg að miðlínu, og gerði allt rétt. Nikolaj Hansen átti bestu tilraun Víkinga í fyrri hálfleik en hjólhestaspyrna hans fór rétt fram hjá.

Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Geoffrey Castillion kom sér strax í gott færi sem hann nýtti þó ekki. Castillion gerði svo afar vel á 53. mínútu þegar hann vann skallaeinvígi á miðjum vallarhelmingi Fjölnis og kom boltanum á Rick ten Voorde sem geystist að vítateigslínunni og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið.

Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og alveg ljóst að bæði sóttu þau til sigurs. Fjölnir fékk vítaspyrnu á 67. mínútu en Andreas Larsen, sem átti mjög góðan leik í marki Víkings, varði spyrnuna vel frá Þóri Guðjónssyni. Í stað þess að Fjölnir kæmist yfir kom Arnþór Ingi Kristinsson Víkingi yfir þegar hann fylgdi á eftir hörkuskoti Castillions.

Þá voru enn 20 mínútur eftir og bæði lið fengu áfram fín færi til að bæta við mörkum. Guðmundur Karl var afar nærri því að jafna metin í lokin þegar Sindri Scheving renndi sér í boltann á marklínu og varðist skoti hans, en Guðmundur Karl var aftur á ferðinni skömmu síðar þegar hann jafnaði metin. Þar við sat þó að bæði lið reyndu að ná í sigurmark.

Fjölnir komst þar með úr fallsæti, upp fyrir Fylki á markatölu, en liðin tvö eru þremur stigum á eftir Víkingum sem sitja í 9. sæti með 19 stig.

Fjölnir 2:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Torfi Tímoteus Gunnarsson (Fjölnir) á skalla sem er varinn Slakur skalli á Larsen, eftir sendingu Jugovic.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert