Sigurinn úti gefur liðinu sjálfstraust

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í byrjun september gæti ráðist hvort að íslenska kvennalandsliðið komist áfram á lokakeppni HM sem fram fer í Frakklandi árið 2019. Ísland leikur þá tvo síðustu leiki sína í undankeppninni, þann fyrri gegn Þýskalandi 1. september en þann síðari gegn Tékklandi 4. september. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Fyrir tvær síðustu umferðirnar er Ísland efst í riðlinum með 16 stig, Þýskaland er með 15 og Tékkland með 10. Sigur gegn Þjóðverjum myndi koma Íslandi beint á HM, en endi leikurinn með jafntefli myndi Ísland tryggja sér HM-sætið með sigri á Tékkum. Að öðrum kosti gæti umspil í október beðið íslenska liðsins, þar sem fjórar þjóðir spila um eitt sæti á HM.

Í samtali við mbl.is segir Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari að leikurinn gegn Þýskalandi komi til með að verða erfiður. Hann var þó fullur bjartsýni á að Ísland gæti náð úrslitum í leiknum.

„Þýska landsliðið er frábært með frábæra sögu og stórkostlega leikmenn og bestu deild í heimi. Það hjálpar okkur að við unnum þær á þeirra heimavelli og það gefur okkur sjálfstraust. Við vitum að þetta verður gríðarlega erfitt en á sama tíma þá eru þetta leikir sem við viljum spila og við trúum því að við getum unnið og við trúum því að með okkar besta leik þá verði þetta okkar besta stund.“

Þjóðverjar gerðu töluverðar breytingar í sinum herbúðum eftir tapleikinn gegn Íslandi. Horst Hrubesch er tekinn tímabundið við liðinu og hefur blásið í það krafti og sjálfstrausti. Freyr segir að íslenska liðið muni í grunninn spila með svipuðum hætti og þær gerðu í útileiknum en munu þó aðlaga sig að nýjum þjálfara og nýjum áherslum:

„Við munum nálgast leikinn aðeins öðruvísi en úti en með sömu grunnáherslum og þegar við spiluðum úti í Wiesbaden. Grunnurinn er svipaður en maður þarf að vera klókur að sjá hvar breyturnar verða í leiknum.“    

Harpa Þorsteinsdóttir, sem hefur verið mikilvægur leikmaður í íslenska hópnum undanfarin ár, er meidd og tekur ekki þátt í þessum leikjum. Ljóst er að það verður mikill missir að henni: 

„Harpa hefur þá frábæru hæfileika að hún tapar ekki boltanum, ef það er spilað á skrokkinn á henni verndar hún boltann vel. Ég ætla ekki að fara í kringum það. En við höfum leikmenn sem geta leyst það hlutverk og að sama skapi get ég breytt aðeins áherslunum. Ef við verðum aftarlega í leiknum höfum við tvennt í stöðunni. Við getum spilað upp í uppspilspunktinn eða farið bak við hann upp í svæðið. Telma Hjaltalín kemur inn og hún hefur öfugan hæfileika við Hörpu og að sama skapi hefur Berglind þann möguleika að geta haldið í boltann eins og Harpa gerir fyrir okkur. Þannig að það koma plúsar og mínusar í þessu. En það segir sig sjálft. Það er missir að Hörpu. En ég er búinn að fara í gegnum svo mörg meiðsli á tíma mínum með kvennalandsliðið að ég er hættur að leyfa mér að hugsa neikvætt.“

Eins og fram hefur komið er Þýskaland með eitt besta landslið heims og mun Ísland þurfa að eiga sinn besta dag ef liðið ætlar sér að ná í úrslit. Tap gegn Þjóðverjum er þó enginn heimsendir. Ef Ísland sigrar Tékka kemst liðið í umspil og heldur því draumnum um sæti á HM lifandi. Spurður hvort Ísland muni leggja árar í bát ef liðið lendir snemma undir gegn Þjóðverjum með það fyrir augum að spara orkuna fyrir leikinn gegn Tékklandi segir Freyr að það muni ekki koma til greina:

„Við munum alltaf eiga möguleika á niðurstöðu sem mun hjálpa okkur. Jafntefli er niðurstaða sem við getum tekið með okkur og sigurinn að sjálfsögðu. Þannig ef við lendum undir höfum við alltaf að einhverju að keppa að ná í þetta stig. Ég held að munum aldrei spila leikinn öðru vísi heldur en að klára allt sem við eigum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert