Ættum að vera í tveimur efstu sætunum

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir átti afar góðan leik í kvöld.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir átti afar góðan leik í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var frábær leikur hjá okkur. Það er erfitt að koma til baka eftir að tapa bikarúrslitum en við sýndum í dag hversu sterkt lið við erum. Við spiluðum af ánægju og með gleði í dag,“ sagði Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, eftir 7:1-stórsigur á HK/Víkingi í Pepsi-deildinni í fótbolta í kvöld. 

„Við lögðum upp með því að njóta þess að spila og spila hver fyrir aðra. Við vorum að missa Hörpu, sem er einn okkar besti markaskorari og við hvíldum Öddu. Það eru stórir bitar fyrir okkur, en við stigum allar upp og gerðum þetta vel.“

Þórdís er ánægð með hversu vel gekk að hrista af sér tap fyrir Breiðabliki í bikarúrslitum á föstudaginn var. 

„Við höfum verið að endurheimta og reyna að þétta hópinn saman og það gekk greinilega vel. Það er engin pressa á okkur núna og við viljum klára þetta með sæmd.“

Stjarnan er í harðri baráttu við Val um þriðja sæti deildarinnar, en Þórdís er ekki sérstaklega ánægð með það. 

„Við erum með frábært lið og við ættum að vera í efstu tveimur sætunum. Við tökum þetta á okkur hvar við stöndum núna og við viljum sýna hversu sterkar við erum í lokin,“ sagði Þórdís Hrönn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert