Afturelding og Grótta komust í toppsætin

Afturelding er á toppi deildarinnar eftir leiki kvöldsins með 33 …
Afturelding er á toppi deildarinnar eftir leiki kvöldsins með 33 stig. mbl.is/Hari

Afturelding skaust á toppinn í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld eftir 3:2-sigur á Kára á Akranesi. Grótta komst einnig uppfyrir Vestra og í annað sætið með sigri í leik liðanna á Seltjarnarnesi en sautjánda umferðin var öll leikin í kvöld.

Alexander Már Þorláksson og Ragnar Már Lárusson komu Kára yfir snemma leiks en Elvar Ingi Vignisson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu á 32. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Alexander Aron Davorsson jafnaði metin fyrir gestina á 66. mínútu áður en Jose Barranco skoraði sigurmark leiksins á 88. mínútu og lokatölur því 3:2 á Akranesi. Kári er í fimmta sæti deildarinnar með 31 stig en Afturelding er í efsta sæti deildarinnar með 33 stig, jafnmörg stig og Grótta en með betri markatölu.

Grótta tók á móti Vestra á Seltjarnanesi þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi, 3:2. Pétur Bjarnason kom Vestra yfir á 10. mínútu en Arnar Þór Helgason jafnaði metin fyrir Gróttu á 19. mínútu. James Mack kom Vestra yfir undir lok síðari hálfleiks og staðan því 2:1 í hálfleik, Vestra í vil. Pétur Theódór Árnason jafnaði metin fyrir Gróttu á 57. mínútu og hann var svo aftur á ferðinni á 89. mínútu þegar hann tryggði Gróttu sigur. Grótta er í öðru sæti deildarinnar með 33 stig en Vestri er í þriðja sætinu með 31 stig.

Þá vann Fjarðabyggð 1:0-sigur á Hugin á Seyðisfirði þar sem Javier Del Cueto skoraði sigurmark leiksins á 2. mínútu. Huginn er í neðsta sæti deildarinnar með 9 stig en Fjarðabyggð er í sjötta sætinu með 28 stig.

Á Sauðárkróki vann Tindastóll 1:0-sigur á Hetti þar sem Stefan Lamanna skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma. Tindastóll er í ellefta sæti deildarinnar með 14 stig og Höttur er í því tíunda með 14 stig líka en betri markatölu en Tindastóll.

Guðmundur Óli Steingrímsson skoraði tvívegis fyrir Völsung í kvöld en …
Guðmundur Óli Steingrímsson skoraði tvívegis fyrir Völsung í kvöld en bæði mörkin komu af vítapunktinum. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Völsungur fór illa með Leikni F. á Húsavík þar sem heimamenn fóru með 4:1-sigur af hólmi. Guðmundur Óli Steingrímsson kom Völsungi yfir á 9. mínútu með marki úr vítaspyrnu og Sæþór Olgeirsson tvöfaldaði forystu Völsungs á 37. mínútu. Povilas Krasnovskis minnkaði minn fyrir Leikni F. á 60. mínútu áður en Guðmundur Óli bætti þriðja marki Völsungs við á 75. mínútu, aftur úr vítaspyrnu. Það var svo Ásgeir Kristjánsson sem innsiglaði sigur Völsungs með marki í uppbótartíma og lokatölur því 4:1. Völsungur er í fjórða sæti deildarinnar með 31 stig en Leiknir F. er í níunda sætinu með 16 stig.

Þá gerðu Þróttur Vogum og Víðir 1:1 jafntefli í Vogunum en Þróttarar eru í sjöunda sæti deildarinnar með 24 stig og Víðir er í áttunda sætinu með 17 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert