Sá mikilvægasti frá upphafi

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson Kristinn Magnússon

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur skrifað draumahandrit sitt að einum mikilvægasta leik sem íslenska kvennalandsliðið hefur spilað þegar Þýskaland kemur í heimsókn á Laugardalsvöllinn 1. september næstkomandi, í undankeppni HM.

Þá mætir Ísland landsliði Tékka 4. september í Laugardalnum en leikirnir tveir munu skera úr um það hvort liðið fari alla leið í lokakeppni HM í Frakklandi 2019, í fyrsta sinn í sögu kvennalandsliðsins. Freyr tilkynnti 23 manna leikmannahóp sinn fyrir leikina gegn Þýskalandi og Tékklandi á blaðamannfundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í gær en Ísland er í efsta sæti 5. riðils undankeppninnar með 16 stig, einu stigi meira en Þýskaland sem er í öðru sæti riðilsins. Fari svo að íslenska liðið vinni leikinn gegn Þjóðverjum eru þær komnar á HM. Verði jafntefli niðurstaðan þarf Ísland að vinna Tékka til þess að komast á HM.

Stundin í Laugardalnum 1. september næstkomandi verður vonandi ekki bara söguleg í því samhengi að Ísland sé að fara að tryggja sér sæti á HM í fyrsta sinn. Freyr, stelpurnar í landsliðinu og forráðamenn KSÍ vonast einnig til þess að uppselt verði á leikinn, í fyrsta sinn í sögu íslenska kvennalandsliðsins. Þjálfarinn lagði mikla áherslu á það í samtali við blaðamann í höfuðstöðvum KSÍ í gær að stuðningurinn við stelpurnar gæti skipt höfuðmáli gegn ógnarsterku liði Þýskalands.

Lykilatriði að fylla völlinn

„Þjóðverjar þekkja sitt sterkasta lið í dag, ólíkt leiknum ytra. Þær eru með hættulegri bakverði í dag en í leiknum í Wiesbaden og í heildina eru þær sterkari. Þær eru hins vegar alveg jafn brothættar núna, og þær voru þá, því þær mega ekki tapa. Þær verða að vinna og ef við náum að fylla völlinn og setja þannig aukapressu á þær gæti það hjálpað okkur mikið. Ég vona innilega að við náum að fylla völlinn og ef okkur tekst að halda markinu hreinu í einhvern ákveðinn tíma munu þær verða örvæntingarfullar og þær munu opna sig. Þá verður auðveldara fyrir okkur að ná þessum úrslitasendingum en tímastjórnunin hjá okkur verður að vera fullkomin í leiknum. Við verðum að stjórna hraða leiksins frá A til Ö.“

Nánar um leikina mikilvægu gegn Þýskalandi og Tékklandi má lesa í íþróttablaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert