Stjarnan fór illa með HK/Víking

Guðmunda Brynja Óladóttir skorar fyrsta markið í kvöld.
Guðmunda Brynja Óladóttir skorar fyrsta markið í kvöld. mbl.is/Hari

Stjarnan vann afar sannfærandi 7:1-sigur á HK/Víkingi í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Stjarnan var með yfirburði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. 

Yfirburðir Stjörnunnar í fyrri hálfleik voru algjörir. HK/Víkingur komst lítið yfir miðju og fór nánast allur leikurinn fram á vallarhelmingi gestanna. Fyrsta markið kom strax á fjórðu mínútu. Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði þá af stuttu færi eftir sendingu Katrínar Ásbjörnsdóttur.

Katrín skoraði svo sjálf á tólftu mínútu er hún komst ein á móti Björk Björnsdóttur í marki HK/Víkings og skoraði af öryggi eftir sendingu Láru Kristínar Pedersen. Guðmunda skoraði annað markið sitt á 24. mínútu er hún skallaði í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu Katrínar.

Fjórða markið kom á 53. mínútu og var að verki Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir. Guðmunda komst þá ein í gegn en í stað þess að skjóta lagði hún boltann á Þórdísi sem átti auðvelt með að koma boltanum í markið.

Á 63. mínútu löguðu gestirnir stöðuna. Margrét Sif Magnúsdóttir komst þá í boltann innan teigs á undan Berglindi Hrund Jónsdóttur í marki Stjörnunnar og markmaðurinn braut á henni. Arna Eiríksdóttir tók vítið og skoraði af öryggi. Mínútu síðar skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir með góðum skalla eftir sendingu Þórdísar Hrannar og breytti stöðunni í 5:1.

Sjötta mark Stjörnunnar kom á 76. mínútu. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði þá af öryggi fram hjá Björk eftir sendingu Láru Kristínar. Birna Jóhannsdóttir skoraði svo sjöunda markið á 86. mínútu með góðu skoti innan teigs. Fleiri urðu mörkin ekki og sannfærandi sigur Stjörnunnar staðreynd. 

Stjarnan 7:1 HK/Víkingur opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert