„Þurfum að sækja stig ef við ætlum að halda okkur uppi“

Katrín Ómarsdóttir hefur verið öflug með KR í sumar.
Katrín Ómarsdóttir hefur verið öflug með KR í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Ómarsdóttir átti ágætan leik með lánlausu KR í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Breiðabliki í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli, 2:0.

„Þetta var einn slakasti leikur sem við höfum spilað í sumar. Við náðum illa að tengja sendingar okkar á milli og vorum ekki góðar fram á við. Við vorum að mæta besta liðinu á Íslandi í dag, þær spila flottan fótbolta og eru alltaf hættulegar. Það sem við lögðum upp með varnarlega var samt að ganga ágætlega upp en við náðum að halda vel, alla vega í fyrri hálfleik. Línurnar okkar héldu vel og svo átti Ingibjörg að sækja boltana frá þeim í gegn, það gekk bara ágætlega,“ en staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus.

„Við vitum vel hvað er fram undan hjá okkur og við förum strax að hugsa um næsta leik held ég. Það eru fjórir leikir eftir af þessu móti og við þurfum að sækja stig ef við ætlum að halda okkur uppi.“ Næsti leikur KR kvenna er heimaleikur á móti Valskonum á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert