Yrði leiðinlegt að hætta út af einhverju svona

Harpa Þorteinsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Harpa Þorteinsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. AFP

„Ég fann það strax hvað hafði gerst. Ég heyrði einhvern smell og var búin að búa mig undir þessa niðurstöðu,“ segir Harpa Þorsteinsdóttir, markahrókur Stjörnunnar og landsliðsframherji í knattspyrnu. Harpa meiddist í hné í bikarúrslitaleiknum gegn Breiðabliki um helgina og nú er orðið ljóst að krossband er slitið. Ætla má að Harpa verði frá keppni í 7-9 mánuði af þeim sökum.

Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem Harpa slítur krossband í hné. Hún hefur í tvígang verið lengur frá keppni vegna barneigna en var fljót að koma sér aftur á fótboltavöllinn eftir að hafa átt sitt annað barn í fyrra og tók meðal annars þátt á EM í Hollandi, tæpum fimm mánuðum eftir barnsburð. Harpa hefur þótt leika afar vel með Stjörnunni í sumar og hefur skorað 8 mörk í 13 deildarleikjum. Útlit var fyrir að hún yrði í byrjunarliði Íslands í stórleiknum við Þýskaland um sæti á HM, sem fram fer á Laugardalsvelli 1. september, en nú er ljóst að svo verður ekki.

„Auðvitað er það alltaf mikið áfall þegar maður meiðist svona alvarlega. Þetta er erfitt, líka í ljósi þess að ég hef komið nokkrum sinnum til baka áður og var ekkert að stefna á að þurfa að gera það aftur,“ segir Harpa og tekur undir það að sérstaklega sé leiðinlegt að missa af komandi stórleikjum landsliðsins.

„Það er ekkert launungarmál að maður stefndi auðvitað á að taka þátt í því að koma liðinu áfram á HM. Að sama skapi tel ég aðra leikmenn einnig hafa verið að spila vel og hafa allt sem þarf til að klára þetta verkefni. Ég hef því engar áhyggjur af þessu, þó að það sé leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í þessu,“ segir Harpa.

Viðtalið má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert