Flóðljósin vígð í Árbænum - Tveir mikilvægir leikir

Fylkismaðurinn Albert Ingason með boltann í leik gegn FH-ingum.
Fylkismaðurinn Albert Ingason með boltann í leik gegn FH-ingum. mbl.is/Valgarður Gíslason

Lokaleikirnir í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld og eru þetta þýðingarmiklir leikir í topp- og botnbaráttu deildarinnar.

Klukkan 18 verður flautað til leiks í viðureign nýkrýndra bikarmeistara Stjörnunnar og KA. Stjörnumenn mega ekki við neinu öðru en sigri en þeir eru í baráttu við ríkjandi Íslandsmeistara Vals um Íslandsmeistaratitilinn. Valur er með 43 stig eftir 20 leiki en Stjarnan 39 stig eftir 19 leiki. KA-menn sitja í 7. sætinu með 24 stig og takist þeim að landa sigri í Garðabænum gulltryggja þeir sæti sitt í deildinni.

Klukkan 19.15 mætast Fylkir og Breiðablik á Floridana-velli þeirra Fylkismanna og verður þetta fyrsti leikurinn sem spilaður verður í flóðljósum á gervigrasvelli Árbæinga. Fylkismenn eru ekki hólpnir. Þeir er með 22 stig í 9. sæti og eru þremur stigum frá fallsæti.

Fari Fylkismenn með sigur af hólmi í kvöld fara þeir langt með að tryggja sæti sitt í deildinni. Blikarnir eru þriðja sætinu með 35 stig og með sigri gulltryggja þeir sér Evrópusæti og eiga enn möguleika á að skáka Stjörnumönnum úr öðru sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert