Kokhreysti í Englandsför

Aron Elí Gíslason.
Aron Elí Gíslason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markverðinum Aroni Elí Gíslasyni hefur skotið upp á stjörnuhimin knattspyrnunnar hér á landi í sumar.

Innan við tvö ár eru liðin síðan hann venti kvæði sínu í kross, lagði handboltaskóna á hilluna og keypti sér markmannshanska og fótboltaskó og mætti á æfingu hjá 2. flokki KA. Nú er hann aðalmarkvörður KA í Pepsi-deildinni, tvítugur að aldri, og átti m.a. stórleik gegn Stjörnunni í 20. umferð deildarinnar í fyrrakvöld.

„Ég hef staðið mig vel og komið mörgum á óvart. Ég heyri það að mörgum þykir saga mín vera hreint ótrúleg, vera hálfgert öskubuskuævintýri,“ sagði Aron Elí þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gærmorgun.

„Þetta byrjaði fyrir nærri tveimur árum er ég fór til Englands með félögum mínum og sá leik Arsenal og Middlesbrough. Þar sem við vorum að fylgjast með leiknum sagði ég við félaga mína í gamni að ég gæti nú alveg örugglega gert betur en Valdés sem átti ekki sinn besta leik í marki Middlesbrough. Vinir mínir svöruðu að það væri nú ekki möguleiki. Ég lét ekki sitja við orðin tóm, keypti mér markmannshanska og mætti á æfingu. Þar með varð ekki aftur snúið,“ sagði Aron Elí.

„Atli Sveinn Þórarinsson þjálfaði annan flokk þegar ég mætti á mína fyrstu æfingu. Hann tók vel á móti mér og hvatti mig óspart áfram,“ sagði Aron Elí.

„Ég þurfti að byrja að æfa frá grunni. Mér hefur gengið vel þótt ég eigi enn margt ólært,“ sagði Aron Elí sem hefur tekið stórstígum framförum á skömmum tíma, svo ekki sé fastara að orði kveðið.

Aron Elí lék sinn fyrsta leik með B-liði annars flokks KA í febrúar á síðasta ári. Um sumarið var hann í þrígang varamarkvörður meistaraflokks KA í Pepsi-deildinni.

Sjá allt viðtalið við Aron Elí í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag ásamt liði 20. umferðar í Pepsi-deildinni og stöðunni í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert