Sandra María best og Alexandra efnilegust

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. mbl.is/Golli

Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, var í dag útnefnd leikmaður ársins 2018 í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður Breiðabliks, var útnefnd efnilegust.

Það eru leikmenn deildarinnar sem standa að valinu og birti KSÍ niðurstöðuna á heimasíðu sinni nú rétt í þessu, en lokaumferð deildarinnar fór fram í dag. Sandra María skoraði 14 mörk fyrir Þór/KA sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar og endaði sem þriðji markahæsti leikmaðurinn. Hún fær verðlaun sín afhent á lokahófi Þórs/KA þann 28. september.

Alexandra var að spila sitt fyrsta tímabil með Breiðabliki og var stór hluti af liðinu sem vann bæði Íslands- og bikarmeistaratitilinn. Hún skoraði fimm mörk í 18 leikjum í sumar og fær verðlaun sín afhent á lokahófi Breiðabliks í kvöld.

Alexandra er fædd árið 2000 og var valin í A-landsliðið í fyrsta sinn fyrir leikina gegn Þýskalandi og Tékklandi á dögunum.

Þá var Bríet Bragadóttir valin dómari ársins annað árið í röð.

Alexandra Jóhannsdóttir.
Alexandra Jóhannsdóttir. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert