„Skil ekki hvernig hann gat dæmt víti“

Eyjakonan Sóley Guðmundsdóttir.
Eyjakonan Sóley Guðmundsdóttir. mbl.is/Arnþór

„Við áttum þennan leik frá fyrstu mínútu og svo fá þær víti í lokin fyrir ekki meira en þetta,“ sagði Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði ÍBV, eftir grátlegt 1:0 tap gegn Selfossi í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

„Hún [Magdalena Reimus] var búin að vera í grasinu allan leikinn. Bryndís kýldi boltann bara í burtu og það var ekkert í þessu. Markmenn njóta oftast vafans og ég skil ekki hvernig hann gat dæmt víti á þetta,“ sagði Sóley ósátt, en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður ÍBV, var dæmd brotleg þegar hún stökk upp í einvígi gegn Magdalenu.

„Þetta snýst um að skora og Selfoss tók stigin þrjú. Við vorum spenntar fyrir leik og það er alltaf gaman að spila á móti Selfossi. En það sást á báðum liðum að það var ekki neitt undir í dag og leikurinn spilaðist þannig,“ sagði Sóley og bætti við að ÍBV gæti ágætlega unað við þetta knattspyrnusumar.

„Við áttum í erfiðleikum framan af móti en það er samt margt jákvætt í þessu í sumar og ég held að við getum verið ánægðar með seinni hluta mótsins hjá okkur. Það eru til dæmis þrjár ungar stelpur að spila fyrir ÍBV í dag, og þær stóðu sig vel, þannig að framtíðin er björt,“ sagði Sóley að lokum.

Kristín Erna Sigurlásdóttir með boltann í leiknum í dag en …
Kristín Erna Sigurlásdóttir með boltann í leiknum í dag en Barbára Sól Gísladóttir sækir að henni. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Hefði örugglega verið öskureiður eins og Jeffsy“

„Þetta var ekki fallegt, sjálfsagt einn af okkar slakari leikjum í sumar en við skoruðum mark og það er það sem skiptir máli í þessu,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir 1:0 sigur á ÍBV í lokaumferðinni í dag.

Það var lítið í húfi fyrir leik og sætaskipan liðanna breyttist ekki eftir þessa umferð, ÍBV er í 5. sæti og Selfoss í því sjötta.

„Ég veit ekki hvort það var málið, að leikmenn væru ekki einbeittir á verkefnið. Við komumst ekki í gang í fyrri hálfleik og ÍBV stýrði þessu næstum allan tímann. Það var hins vegar mjög sætt að ná að klára mótið með sigri þó að við höfum kannski ekki átt mikið í þessum leik,“ bætti Alfreð við.

Magdalena Reimus skoraði sigurmarkið í uppbótartíma með marki úr umdeildri vítaspyrnu, en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður ÍBV, var dæmd brotleg eftir einvígi gegn Magdalenu.

„Ég veit það ekki, dómarinn dæmdi þetta svona og þannig er það bara. En ég hefði örugglega verið öskureiður eins og Jeffsy ef þetta hefði verið dæmt á mitt lið,“ sagði Alfreð léttur að lokum. Eyjamenn voru mjög ósáttir við dómarann og Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, fékk rautt fyrir mótmæli eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert