Hefur aldrei rætt um Keflavík

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, er ánægður með að liðið sé …
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, er ánægður með að liðið sé með örlögin í sínum höndum fyrir lokaumferðina. Ljósmynd/Ole Martin

„Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik en við vorum slakir í seinni hálfleik. Að tapa leik eins og við gerðum í dag er eins grátlegt og það verður í fótbolta,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn FH í 21. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Hafnarfirðinum í dag.

„Eins og ég hef sagt áður þá erum við með örlögin í okkar eigin höndum fyrir lokaumferðina og það er frábær staða að vera í. Þetta sigurmark sem þeir skora kemur eftir hornspyrnu og klafs í teignum og það er oftast þannig í knattspyrnu að sá sem er grimmari á boltann vinnur hann. Mér fannst við vera langt frá mönnum í seinni hálfleik og hræddir við að halda boltanum.“

Valsmenn mæta Keflavík í lokaumferð Pepsi-deildarinnar en Valsmenn eru í efsta sæti deildarinnar með 43 stig. Keflavík hefur ekki unnið leik í sumar og er með 4 stig í neðsta sæti deildarinnar. Ólafur neitar að ganga að sigrinum vísum gegn föllnu liði Keflavíkur á laugardaginn, en sigur á laugardaginn tryggir Valsmönnum Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég hef aldrei talað um Keflavík við einn eða neinn en það hafa margir aðrir verið duglegir að tjá sig um þá, bæði fréttamenn og nú þjálfarar. Við berum virðingu fyrir öllum andstæðingum og nálgumst þá eins og alvörumótherja og við munum gera það í lokaleiknum líka. Það getur allt gerst í fótbolta og við þurfum að gera okkur grein fyrir því. Við þurfum að nálgast leikinn á laugardaginn eins og menn ef við ætlum okkur að lyfta þessum Íslandsmeistaratitli,“ sagði Ólafur Jóhannesson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert