Fylkir með öruggt sæti í efstu deild

Pálmi Rafn Pálmason úr KR og Emil Ásmundsson, Fylki, í …
Pálmi Rafn Pálmason úr KR og Emil Ásmundsson, Fylki, í skallaeinvígi í dag. mbl.is/Hari

KR og Fylkir gerðu 1:1 jafntefli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Alvogen-vellinum í dag. Mark KR skoraði Björgvin Stefánsson en Oddur Ingi Guðmundsson skoraði mark Fylkis. Þar sem Fjölnir tapaði fyrir Breiðabliki er Fylkir öruggur með sæti í efstu deild að ári.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. KR var meira með boltann en tókst illa að skapa sér góð marktækifæri. KR komst næst því að skora á 24. mínútu þegar Atli Sigurjónsson tók laglega á móti boltanum hægra megin á vellinum en skotið var laust og Aron Snær, markvörður Fylkis, varði vel. Fylkir lá aftarlega á vellinum og treysti á skyndisóknir. Úr einni þeirra fengu þeir upplagt marktækifæri þegar Elís Rafn fékk fyrirgjöf frá hægri en skaut yfir inn í markteig.

Seinni hálfleikurinn var mun líflegri. KR komst yfir á 53. mínútu þegar Björgvin Stefánsson skoraði með skoti í stöngina inn. KR var áfram með yfirhöndina en tókst ekki að bæta við marki. Það átti eftir að koma í bakið á þeim því Oddur Ingi Guðmundsson jafnaði leikinn á 84. mínútu eftir atgang í teignum. Þrátt fyrir mikla pressu KR á lokamínútunum tókst þeim ekki að skora og því voru lokatölur 1:1.

KR er enn þá í 4. sæti deildarinnar með 34 stig líkt og FH en með betri markatölu. Fylkir er áfram í því 10. með 23 stig en stigið dugar þeim til þess að vera með öruggt sæti í Pepsi-deildinni að ári.

KR 1:1 Fylkir opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert