Skemmtilegra þegar margir eru í stúkunni

Kristján Guðmundsson var hæstánægður í dag.
Kristján Guðmundsson var hæstánægður í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, var að springa úr gleði eftir sigur sinna manna gegn Stjörnumönnum í Pepsi-deild karla í fótbolta í dag. Leiknum lauk 2:1 en bæði mörk ÍBV komu í seinni hálfleik með skotum fyrir utan teig.

„Mér líður mjög vel að hafa sigrað, við höfðum trú á því að við gætum það. Þær breytingar sem við gerðum á liðinu skiluðu sér mjög vel inn í leikinn. Við eigum góðan kafla í upphafi, þá koma Stjörnumenn inn í það og skora á þeim kafla. Það fannst mér eini sterki kaflinn þeirra, svo vorum við mjög góðir í seinni hálfleik, framför frá síðasta leik.“

Kristján var sáttur með hvernig hans menn brugðust við eftir glataðan seinni hálfleik gegn Val.

„Við gáfum tóninn strax í fyrstu sókninni þegar Víðir átti skot sem fauk næstum því inn, þá kveiktum við í fólkinu sem kom og horfði á okkur. Þakklæti til þeirra að koma að styðja okkur, það er svo miklu skemmtilegra að spila þegar það eru svona margir í stúkunni og það heyrist svona vel í þeim. Ég ætla að þakka þeim fyrir að mæta á síðasta heimaleikinn okkar og ég er hrikalega glaður með það að við skyldum gefa fólkinu sigur.“

„Við höfum verið að hugsa um að ná í þessi 26 stig, við vorum með 25 stig í fyrra og markmiðið var að sjálfsögðu að gera betur eins og allir setja upp fyrir sitt tímabil. Fyrst og fremst vorum við ekkert að hugsa um það sem var fyrir neðan okkur, heldur að komast eins hátt upp töfluna og mögulegt er. Það er komið miklu meira og betra jafnvægi í leik ÍBV-liðsins og hefur vaxið í fyrra og enn meira í ár, núna fimm síðustu leikina vorum við ekkert að hugsa um fall heldur bara hvar við myndum ná að tína inn sigrana og ná í þessi 26 stig. Það er þó einn leikur eftir og vonandi tekst okkur að ná í stig þar. Það sem við erum að gera hérna er hægt og bítandi betra ÍBV-lið.“

Eyþór Orri Ómarsson, ungur leikmaður ÍBV, kom inn á eftir 60 mínútur í dag og breytti leik ÍBV-liðsins mikið. Hann vann boltann í upphafi sóknar í jöfnunarmarki liðsins og var síðan nálægt því að skora í tvígang.

„Við settum þetta upp fyrir leikinn að Breki ætti að djöflast í þeim til að byrja með og síðan settum við Eyþór inn, hann sýndi það að hann er tilbúinn í þetta þó að hann sé ungur og er stórhættulegur þarna í teignum. Kannski eigum við að vera búnir að spila honum meira en hann hefur verið í öðrum verkefnum, með 3. flokki, 2. flokki og landsliðinu. Hann hefur verið að spila þar líka þannig að við höfum verið að passa upp á hann, það er flott að þetta skyldi ganga svona vel upp hjá honum í dag. Hann á framtíðina fyrir sér ef hann heldur rétt á spöðunum.“

Gunnar Heiðar Þorvaldsson gaf það út fyrir leik að hann ætlaði að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið og var þetta því síðasti leikur hans á Hásteinsvelli.

„Við horfum frekar á það hvað hann er búinn að gera vel fyrir okkur, þessi tvö ár sem ég hef verið hérna þá er búið að vera geggjað að hafa hann með okkur og kynnast honum. Hann skoraði mikilvæg mörk í fyrra, mörg mörk, færri í ár en hann er búinn að gefa okkur gríðarlega mikið og mér persónulega líka. Ég vil þakka honum fyrir þessi tvö ár hér og allan þann stuðning sem hann hefur veitt mér og ÍBV,“ sagði Kristján að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert