„Spáð falli og afsönnuðum það“

Keflvíkingurinn Anton Freyr Hauks sendir knöttinn fram völlinn. Alex Freyr …
Keflvíkingurinn Anton Freyr Hauks sendir knöttinn fram völlinn. Alex Freyr Hilmarsson úr Víking fylgist með. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Þetta er mjög mikill léttir, þetta var mikilvægur og langþráður sigur,“ sagði Örvar Eggertsson, leikmaður Víkings R., eftir að liðið endanlega tryggði sæti sitt í efstu deild karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni, með 4:0-útisigri á Keflavík í næstsíðustu umferðinni í dag.

Ekki bara var sigurinn sætur heldur skoraði Örvar loks sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir Víking en hann er á sínu öðru tímabili með liðinu.

„Það er léttir að skora loksins, ég hef beðið lengi eftir því. Nú viljum við bara vinna næsta leik og koma okkur ofar á töflunni, við viljum klára tímabilið eins vel og hægt er.“

Örvar segir Víkinga auðvitað vilja vera ofar í töflunni en að sama skapi séu þeir sáttir með að hafa afsannað spár sérfræðinganna með því að forðast fallið. Víkingur er í 8. sæti fyrir lokaumferðina og gæti hugsanlega fært sig upp um eitt sæti með sigri í lokaleiknum gegn KR.

„Okkur var náttúrulega spáð falli og við afsönnuðum það. Við viljum auðvitað vera ofar en þetta er eitthvað til að byggja á.“

Örvar Eggertsson (t.v.) í leik með Víkingum í sumar.
Örvar Eggertsson (t.v.) í leik með Víkingum í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert