Stíga Valsmenn sigurdansinn í Kaplakrika?

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, og Einar Karl Ingvarsson, miðjumaður …
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, og Einar Karl Ingvarsson, miðjumaður Vals, mætast í Kaplakrika í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verða Valsmenn Íslandsmeistarar annað árið í röð í dag, þegar næstsíðasta umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta verður öll leikin klukkan 14.00? Eða helst spennan fram í lokaumferðina sem fer fram á laugardaginn kemur?

Ólafur Jóhannesson og lærisveinar hans í Val gætu fagnað Íslandsmeistaratitlinum í leikslok í Kaplakrika í dag en þar mæta þeir FH-ingum í stórleik umferðarinnar. Á sama tíma verður Rúnar Páll Sigmundsson með Stjörnumenn á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Valur er með 43 stig en Stjarnan 40 stig, og þá er markatalan Valsmönnum í hag um þrjú mörk. Sá munur hverfur þó fljótt ef Valur tapar og Stjarnan vinnur.

Bæði Valur og Stjarnan eiga mjög erfið verkefni fyrir höndum. FH og ÍBV munu ekki gefa neitt eftir. FH-ingar verða að vinna leikinn gegn Val til að halda í vonina um að ná fjórða sætinu og komast í Evrópukeppni næsta sumar. Eyjamenn eru í fallhættu og gætu komið sér í mjög snúna stöðu ef þeir tapa leiknum gegn Garðabæjarliðinu.

Lykilmenn verða fjarri góðu gamni í Kaplakrika því FH-ingarnir Steven Lennon og Pétur Viðarsson verða í leikbanni, sem og Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Valsmanna.

Óhætt er að segja að Valsarar standi uppi með pálmann í höndunum ef þeir verða stigi eða stigum ofar Stjörnunni í leikslok í dag, þótt Garðbæingar ættu enn möguleika. Í lokaumferðinni fær Valur botnlið Keflavíkur í heimsókn á meðan Stjarnan þarf að kljást við „erkifjendur“ sína í FH.

Hafnfirðingarnir hafa því heldur betur úrslitaáhrif á þessu Íslandsmóti, um leið og allt er undir hjá þeim í slagnum við KR um fjórða sætið.

Evrópusætið til KR-inga?

KR-ingar taka á móti Fylki í Vesturbænum. Ef KR vinnur leikinn og FH vinnur ekki Val hafa Vesturbæingar gulltryggt sér fjórða sætið og þátttökuna í Evrópukeppni.

Breiðablik siglir þarna á milli, Blikar eru komnir með Evrópusætið og eiga tölfræðilega möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en þeir eru með 38 stig, fimm stigum á eftir Val. Sú von er byggð á því að Valur tapi fyrir FH og vinni ekki Keflavík (eða öfugt) og Blikar vinni upp átta mörk með tveimur sigrum, auk þess sem Stjarnan fengi heldur ekki meira en fjögur stig úr sínum leikjum. Blikar fara í Grafarvog í dag og mæta Fjölni sem er í harðri botnbaráttu.

Fellur Fjölnir eða fer allt í hnút?

Sá slagur gæti líka verið til lykta leiddur í dag. Í fallbaráttunni eru ÍBV með 23 stig, Víkingur með 22, Fylkir með 22 og Fjölnir með 19 stig en eitt þessara liða fellur með Keflvíkingum. Ef Fjölnismenn tapa fyrir Blikum eru þeir fallnir ef bæði Víkingur og Fylkir ná í stig. Víkingar eru í dauðafæri, þeir sækja Keflvíkinga heim og myndu með sigri vera komnir í örugga höfn. Fylkir á öllu erfiðari leik fyrir höndum gegn KR eins og áður er getið.

Fari svo að enn verði þriggja stiga munur, eða minni, á Fjölni og Fylki eftir leiki morgundagsins verður magnþrungin spenna í lokaumferðinni því þá mætast liðin í Árbænum, þá nánast örugglega í hreinum úrslitaleik um sæti í deildinni. Nema Víkingar komi sér í vandræði með ósigri í Keflavík í dag, þá yrðu þeir flæktir í botnbaráttuna í viku til viðbótar.

Grindavík gæti enn fallið

KA tekur á móti Grindavík í „rólegasta“ leik umferðarinnar en þó er hugsanlegt að tapliðið gæti dregist inn í fallbaráttu fyrir lokaumferðina. Það er þó afar langsótt, sérstaklega hvað varðar KA-menn, en það er vissulega enn hægt að falla á 25 stigum. Ef Fjölnir vinnur Breiðablik, Fylkir vinnur KR, Víkingur vinnur Keflavík og ÍBV vinnur Stjörnuna gæti Grindavík mögulega verið komin í slæm mál með tapi á Akureyri. Grindavík og ÍBV eigast við í lokaumferðinni.

Í leiðinni er harður slagur um markakóngstitil deildarinnar því Patrick Pedersen hefur skorað 16 mörk fyrir Val og Hilmar Árni Halldórsson 15 mörk fyrir Stjörnuna. Ekki er útilokað að annar eða báðir gætu jafnað markametið, 19 mörkin, eða slegið það. Pedersen hefur verið sérstaklega heitur undanfarið og skorað níu mörk í síðustu sex leikjum Valsmanna, þar af tvær þrennur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert