Tufa kvaddi KA-menn með sigri

KA-maðurinn Callum Williams með boltann.
KA-maðurinn Callum Williams með boltann. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Grindavík buðu upp á mikla markaveislu í Pepsi-deildinni í fótbolta dag. Leikurinn skipti ekki miklu máli þar sem liðin sátu nokkuð stöðug í 6. og 7. sætinu. Átti Grindavík þó enn tölfræðilegan möguleika á að falla úr deildinni. KA vann 4:3 eftir harða atlögu Grindvíkinga á lokakafla leiksins. Tufa, þjálfari KA, var að stýra sínum mönnum í síðasta skipti á heimavelli og var hann hylltur í leikslok.

KA byrjaði leikinn með mikilli flugeldasýningu og var komið í 3:0 snemma leiks. Hallgrímur Mar gaf tóninn með frábæru marki. Þá skrúfaði hann boltann í fjærhornið af vítateigslínunni. Daníel Hafsteinsson skoraði svo enn betra mark skömmu síðar er hann þrumaði boltanum með viðstöðulausu skoti undir þverslána. Finninn Elias Tamburini var svo óheppinn að skora sjálfsmark eftir fasta fyrirgjöf frá Daníel Hafsteinssyni.

Grindvíkingar svöruðu strax fyrir sig og skoraði Sam Hewson tvö mjög falleg mörk með skotum í bláhorn KA-marksins. Staðan orðin 3:2 eftir hálftíma leik og allt að gerast. Hallgrímur Mar bætti svo við marki úr aukaspyrnu og kom KA í 4:2 fyrir hálfleik. Sex mörk í fyrri hálfleik og veislan rétt hálfnuð.

Fátt markvert gerðist svo fyrsta hálftímann í seinni hálfleik, allt þar til Archange Nkumu ákvað að gefa Grindvíkingum vítaspyrnu sem Sam Hewson skoraði úr. Fjörgaðist leikurinn við þetta og leituðu Grindvíkingar ákaft eftir jöfnunarmarkinu. Það kom ekki en á lokamínútunum áttu Grindvíkingar tvö hörkuskot. Aron Elí Gíslason varði fyrra skotið uppi í skeytunum og svo Rodrigo Mateo skot í þverslá. KA slapp fyrir horn og landaði loks sigri eftir nokkur sár jafntefli.

KA 4:3 Grindavík opna loka
90. mín. Aron Elí Gíslason (KA) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert