„Það er allt hægt í fótboltanum“

Sandra María Jessen og Sara Björk Gunnarsdóttir í fyrri leiknum.
Sandra María Jessen og Sara Björk Gunnarsdóttir í fyrri leiknum. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Það er alltaf möguleiki,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, eftir æfingu liðsins í Þýskalandi í dag. Þór/KA mætir stórliði Wolfsburg í síðari viðureign þeirra í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudag.

Wolfsburg vann tvöfalt í Þýskalandi á síðustu leiktíð og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Liðið vann þó aðeins nauman sigur á Akureyri, 1:0. Er möguleiki fyrir Þór/KA að fara áfram?

„Þetta er bara fótboltaleikur, 0:0 þegar flautað er til leiks. Auðvitað vitum við að þetta er krefjandi verkefni gegn gríðarlega sterku liði, en það er allt hægt í fótboltanum,“ sagði Sandra María við vefsjónvarp félagsins.

Eins og fram hefur komið eru mexí­kósku landsliðskon­urn­ar Stephany Mayor, Bianca Sierra og Ari­ana Calderon fjarri góðu gamni. Mexí­kóska knatt­spyrnu­sam­bandið krafðist þess að fá leik­menn­ina til sín til und­ir­bún­ings og Þór/​KA gat ekki komið í veg fyr­ir það. Liðið nær því ekki að fylla varamannabekk sinn á miðvikudag.

„Það að hafa 14 leikmenn er nóg, við getum skipt þremur inn á. Við hugsum bara um það sem er í okkar höndum, spila á okkar styrkleikum og vera þéttar varnarlega. Stemningin er mjög góð og við stelpurnar bíðum spenntar eftir leiknum. Það er mikil einbeiting í hópnum og fyrsta æfingin hérna var mjög góð,“ sagði Sandra María.

Hún var að lokum spurð út í viðurkenninguna sem hún hlaut sem besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna sem lauk um helgina.

„Þetta er hrikalega stór viðurkenning og eitthvað sem ég var ekki að búast við. En þetta gleður mig mjög mikið,“ sagði Sandra María Jessen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert