„Það er ekkert til í þessu“

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu, blæs á þann orðróm að hann sé að taka við liði í Pepsi-deildinni.

Í þættinum Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöld var Heimir orðaður við þjálfarastöður bæði hjá ÍBV og KA. Ljóst er að KA-menn eru í þjálfaraleit þar sem Tufa hættir eftir tímabilið en framtíð Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara ÍBV, er í óvissu. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við ÍBV en uppsagnarákvæði eru í honum að loknu tímabilinu.

„Það er ekkert til í þessu,“ segir Heimir í samtali við netmiðilinn fótbolti.net en hann lét af störfum sem landsliðsþjálfari eftir HM í Rússlandi í sumar.

„Planið er að vera tilbúinn í eitthvað um áramótin eða eitthvað svoleiðis. Ég er að halda mig við það plan sem ég setti mér. Ég er að fara á námskeið og læra. Ég er líka með fyrirlestra og er að reyna að samtvinna þetta.

Mig langar að fara í félagsliðafótbolta aftur. Þá þarf maður smá undirbúningstíma. Það er svolítið mikið öðruvísi en að vera með landslið. Það sem ég geri, ég vil gera það vel,“ segir Heimir við fótbolti.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert