Söknum enn þá lykilmanna

Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni við Granit Xhaka í leiknum …
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni við Granit Xhaka í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er aldrei jákvætt að lenda undir og sérstaklega ekki 2:0-undir. Sviss er með frábært lið og eftir að þeir komast yfir fóru þeir að halda boltanum betur og þá varð þetta erfiðara fyrir okkur,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Sviss í 2. riðli Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þegar þeir skora fyrsta markið þá opnast leikurinn og við þurfum að sækja meira og mér fannst þetta spilast aðeins upp í hendurnar á þeim. Við getum alveg verið sammála um það að bæði mörkin sem við fáum á okkur eru mörk sem við erum ekki ánægðir með. Leikurinn var í járnum, áður en þeir skora fyrsta markið, og það var óþarfi að gefa þeim yfirhöndina með þessum mörkum.“

Gylfi Þór lætur vaða á markið á Laugardalsvelli í kvöld.
Gylfi Þór lætur vaða á markið á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðum upp á okkar besta í undankeppninni

Íslenska liðið setti mikla pressu á svissneska liðið á lokamínútunum og er Gylfi svekktur með að hafa ekki jafnað leikinn undir restina.

„Við þurftum að taka sénsa og færa okkur framar og þá teygist á liðinu. Þeir eru mjög góðir í að finna svæði á milli miðju og varnar og þeir eru fljótir að refsa. Markmaðurinn þeirra var fínn á milli stanganna í kvöld en við eigum að gera betur í þessum færum sem við fáum undir lok leiksins og skora alla vega eitt mark.“

Þrátt fyrir slæmt gengi að undanförnu er Gylfi bjartsýnn og hann á von á því að liðið fari að skila sigrum í hús, þegar undankeppni EM hefst á næsta ári.

„Það er ekki gaman að tapa fótboltaleikjum en við höfum að sama skapi verið að mæta frábærum liðum í síðustu leikjum. Við vorum ekki langt frá því að vinna Frakkana úti og það styttist í að við förum að vinna aftur leiki. Við söknum enn þá lykilmanna og þegar þeir verða komnir aftur, og undankeppni EM hefst, þá verðum við upp á okkar besta,“ sagði Gylfi Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert