Lillý Rut reynir fyrir sér í Noregi

Sara Björk Gunnarsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir í baráttu í …
Sara Björk Gunnarsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir í baráttu í leik Wolfsburg og Þórs/KA í Meistaradeildinni í síðasta mánuði. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lillý Rut Hlynsdóttir, leikmaður Þórs/KA í knattspyrnu, er á leið til Noregs þar sem hún verður á reynslu hjá úrvalsdeildarliði Sandviken.

Samningur Lillýjar við Þór/KA rennur út um áramót og er hún nú að skoða sín mál, meðal annars með tilliti til náms og áframhalds á knattspyrnuferlinum, eins og orðað er á heimasíðu Þórs. Sandviken er í fjórða sæti norsku úrvalsdeildarinnar þegar tímabilinu er rétt að fara að ljúka.

Lillý er 21 árs gömul og hefur allan sinn feril leikið með Þór/KA, en hún spilaði sinn fyrsta deildarleik með liðinu árið 2012, þá 15 ára  gömul. Hún á að baki 110 leiki í efstu deild með liðinu þar sem hún hefur skorað átta mörk. Hún á samtals að baki 34 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert