Verðum að hafa trú

Alfreð Finnbogason
Alfreð Finnbogason mbl.is/Kristinn Magnússon

Alfreð Finnbogason er einn heitasti framherjinn í Evrópufótboltanum í dag og íslenska landsliðið þarf svo sannarlega á markanefi hans að halda þegar það mætir frábæru liði Belga í Þjóðadeild UEFA í Brussel á fimmtudagskvöldið.

Alfreð hefur raðað inn mörkunum fyrir Augsburg frá því hann sneri aftur inn á völlinn eftir meiðsli. Hann hefur skorað sex mörk í síðustu sjö leikjunum með Augsburg í þýsku deildinni eftir að hafa misst af fyrstu fimm leikjum liðsins vegna meiðsla. Aðeins einn leikmaður hefur skorað fleiri mörk í deildinni en Alfreð.

Morgunblaðið hitti markvarðahrellinn mikla fyrir æfingu landsliðsins í Brussel í gær en Alfreð leikur annað kvöld sinn 54. landsleik. Hann hefur skorað 15 landsliðsmörk en framherjinn snjalli náði þeim glæsilega áfanga á dögunum að skora sitt 100. deildarmark á ferli sínum erlendis.

„Maður gerir sér alveg grein fyrir því að okkar bíður hrikalega erfiður leikur á móti Belgunum. Jú, jú, maður hefur orðið var við að fólk er kvíðið fyrir þessum leik en við höfum ekkert látið það fara inn í hópinn. Fyrir leikinn á móti Frökkum held ég að enginn hafi trúað því að við gætum fengið eitthvað út úr þeim leik en annað kom á daginn og við vorum einfaldlega óheppnir að vinna ekki Frakkana. Við verðum að hafa trú á því að við getum unnið Belgana. Við höfum unnið mjög mörg sterk lið á síðustu árum. Það hjálpar auðvitað ekki til að við erum með marga menn í meiðslum en þá fá bara yngri leikmenn tækifæri á stærsta sviðinu og þeir sem hafa minna fengið að spila. Belgarnir eru með besta lið heims í dag ásamt Frökkum. Heimslistinn lýgur ekki,“ sagði Alfreð.

Nánar er rætt við Alfreð í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert