Bronslið HM reyndist of sterkt

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta þurfti að sætta sig við 2:0-tap á útivelli fyrir Belgíu í lokaleik liðsins í 2. riðli í A-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld. Íslenska liðið, sem var fallið niður í B-deildina fyrir leikinn, tapaði öllum leikjum sínum í riðlinum. 

Belgíska liðið var mun meira með boltann í fyrri hálfleik og sótti nokkuð mikið upp hægri kantinn. Thomas Meunier átti nokkrar hættulegar fyrirgjafir, en vörn íslenska liðsins stóð mjög vel. Eftir eina slíka fyrirgjöf fékk Michy Batshuayi besta færi fyrri hálfleiks en hann skaut í nærstöngina af stuttu færi á 17. mínútu.

Þrátt fyrir að Belgarnir hafi sótt mikið það sem eftir lifði hálfleiks, þurfti Hannes Þór Halldórsson ekki að taka á honum stóra sínum í markinu. Hannes þurfti tvívegis að verja í hálfleiknum, fyrst frá Eden Hazard á 35. mínútu, og svo Batshuayi tveimur mínútum síðar, en bæði skotin voru laus og auðveld viðureignar. 

Hinum megin tókst íslenska liðinu ekki að skapa sér alvörufæri og var staðan markalaus í hálfleik. Síðari hálfleikurinn var svipaður, Belgarnir voru afar mikið með boltann og sóttu. Á 63. mínútu átti Dries Mertens stórhættulega aukaspyrnu rétt utan teigs, en boltinn fór í stöngina.

Aðeins tveimur mínútum kom hins vegar fyrsta markið. Eden Hazard átti þá fallega sendingu á Meunier sem lagði boltann á Basthuayi og framherjinn kláraði auðveldlega af stuttu færi. Skömmu síðar kom besta færi Íslands í leiknum. Albert Guðmundsson komst þá í góða stöðu innan teigs eftir samleik við Arnór Ingva Traustason en Thibaut Courtois í marki Belga varði skot Alberts vel. 

Annað mark Belga kom á 81. mínútu og aftur var það Basthuayi. Thorgan Hazard sendi fyrir markið á Hans Vanaken sem skaut utan teigs, Hannes varði, en beint fyrir fætur framherjans sem skoraði af stuttu færi. Fá færi litu dagsins ljós eftir annað markið og er erfiðri frumraun Íslands í Þjóðadeildinni lokið. 

Belgía 2:0 Ísland opna loka
90. mín. Arnór Ingvi Traustason (Ísland) á skot framhjá Belgarnir koma boltanum í burtu eftir hornið og beint á Arnór en skotið er hátt yfir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert