Eigum marga hæfileikaríka unga leikmenn

Erik Hamrén.
Erik Hamrén. AFP

„Ég get ekki annað en verið sáttur við frammistöðu liðsins,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, eftir 2:0 tap gegn Belgum í lokaleik íslenska liðsins í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í Brussel í kvöld.

„Ég sagði það á blaðamannafundi fyrir leikinn að það væri munur á milli Belga og Íslendinga, Belgar í efsta sæti styrkleikalista FIFA og Ísland í 36. sæti. Við vissum að þeir yrðu með boltann og við þyrftum að verjast og reyna að ná skyndisóknum.

Í stöðunni 1:0 vorum við nálægt því að jafna og ef þú vilt ná góðum úrslitum á móti svona liði þá þarftu að nýta svona færi,“ sagði Hamrén. Albert Guðmundsson fékk gott færi áður en Belgar skoruðu annað mark sitt en Thibaut Courtois varði skot Alberts, sem var mjög sprækur í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu í keppnisleik með A-landsliðinu.

„Við eigum marga hæfileikaríka unga leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér,“ sagði Hamrén en Arnór Sigurðsson og Jón Dagur Þorsteinsson, sem kom inn á sem varamaður, léku báðir sína fyrstu A-landsleiki í kvöld.

Þetta var fimmti leikur landsliðsins undir stjórn Svíans og hefur íslenska liðið tapað fjórum þeirra og gert jafntefli við heimsmeistara Frakka í vináttuleik. Ísland leikur sinn síðasta leik á árinu á mánudaginn en þá mætir það Katar í vináttuleik sem fram fer í Belgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert