Englendingar reyndust of sterkir

Íslenska U19 ára liðið í Tyrklandi.
Íslenska U19 ára liðið í Tyrklandi. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U19 ára landslið karla í knattspyrnu mátti þola 3:1-tap gegn Englandi í öðrum leik sínum í undankeppni EM yngri en 19 ára í morgun. Ísland er í 5. riðli undankeppninnar, sem er leikinn í Tyrklandi.

Steven Sessegnon kom enskum yfir strax á 13. mínútu áður en Ísak Óli Ólafsson jafnaði metin með hörkuskalla eftir aukaspyrnu Birkis Heimissonar fyrirliða.

Stephen Walker bætti við tveimur mörkum fyrir England í síðari hálfleik. Englendingar áttu 23 skottilraunir, þar af átta á markið, en íslensku strákarnir aðeins þrjár og var skalli Ísaks sú eina sem rataði á rammann.

Ísland vann heimamenn í Tyrklandi í fyrsta leik, 2:1, og hefur því þrjú stig eftir tvo leiki og situr í öðru sætinu en Tyrkland og Moldóva mætast síðar í dag. Ísland mætir Moldóvu í lokaleiknum á þriðjudaginn kemur og á sama tíma mætast Tyrkir og Englendingar. Efstu tvö liðin fara áfram í milliriðil þannig að miklar líkur eru á að sigur gegn Moldóvum myndu skila íslenska liðinu þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert