Thomsen á leiðinni í Vesturbæinn

Tobias Thomsen er á leiðinni aftur í KR.
Tobias Thomsen er á leiðinni aftur í KR. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnumaðurinn Tobias Thomsen er á leiðinni í KR en það er knattspyrnumiðillinn fótbolti.net sem greinir frá þessu í dag. Tobias varð Íslandsmeistari með Val í sumar en hann fékk ekki mikið að spila í sumar. Samningur hans við Val rann út í október en hann hann er danskur sóknarmaður sem kom fyrst til landsins þegar hann samdi við KR sumarið 2017.

Hann skoraði níu mörk í úrvalsdeildinni, sumarið 2017, en hann skoraði eitt mark í fjórtán leikjum með Valsmönnum í sumar. Thomsen verður fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við KR eftir að tímabilinu lauk í sumar en Arnþór Ingi Kristinsson, Alex Freyr Hilmarsson og Ægir Jarl Jónsson hafa allir samið við félagið, undanfarnar vikur.

KR mun leika í Evrópukeppni á næstu leiktíð en liðið endaði í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar í sumar. Rúnar Kristinsson er á sínu öðru tímabili með liðið en hann tók við KR, árið 2017, af Willum Þór Þórssyni sem tók sæti á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert