Ísland á réttri leið í átt að FIFPro

Jonas Baer-Hoffman með íslensku landsliðstreyjuna á fundinum í kvöld.
Jonas Baer-Hoffman með íslensku landsliðstreyjuna á fundinum í kvöld. mbl.is/Bjarni Helgason

Árlegur fundur leikmannasamtaka Íslands fór fram í kvöld á Hótel Cabin en þar voru næstu skref samtakanna rædd með fyrirliðum liða í efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu. Þrír fulltrúar FIFPro, alþjóðlegu leikmannasamtakanna, voru á fundinum og ræddu við íslensku leikmennina en Ísland hefur nú hafið ferli um að ganga alfarið í FIFPro-samtökin. Jonas Baer-Hoffmann, framkvæmdastjóri Evrópudeildar FIFPro, ræddi við mbl.is um stöðu íslensku leikmannasamtakanna og ferlið að ganga í FIFPro-samtökin.

„Við höfum unnið með forráðamönnum leikmannasamtakanna á Íslandi undanfarin tvö til þrjú ár og samtökin hérna á Íslandi eru enn þá á byrjunarstigi, ef svo má að orði komast. Íslensku leikmannasamtökin eru að taka fyrstu skrefin í átt að samtökunum og núna munum við hjálpa þeim með næstu skref í ferlinu. Þetta þýðir að íslensku leikmannasamtökin ættu að vera fullgildir aðilar innan FIFPro innan nokkurra ára. Leikmennirnir sjálfir eru mjög áhugasamir um samtökin og það hjálpar og núna munum við halda áfram að styðja vel við bakið á þeim í ferlinu sem er fram undan.“

Baer-Hoffman segir að íslensku leikmannasamtökin séu á réttri leið og að nú þurfi íslenskir leikmenn að hjálpa samtökunum að stækka.

Fulltrúar FIFPro á fundi leikmannasamtaka Íslands.
Fulltrúar FIFPro á fundi leikmannasamtaka Íslands. Ljósmynd/Leikmannasamtök Íslands

Snýst um viljastyrk

„Þetta snýst fyrst og fremst um vilja leikmannanna sjálfra að verða hluti af FIFPro-samtökunum. Leikmennirnir þurfa að vera virkir félagar í íslensku leikmannasamtökunum og eiga í góðu sambandi við Knattspyrnusamband Íslands. Leikmannasamtökin á Íslandi þurfa styrktaraðila og fjármagn til þess að halda rekstrinum gangandi. Samtökin þurfa sterka stjórnendur á bak við sig með öflugu skipuriti og það er einn af þeim hlutum sem við munum aðstoða og hjálpa þeim með. Að sama skapi er allt til alls á Íslandi til þess að starfrækja mjög öflug leikmannasamtök fyrir íslenska leikmenn og ég er mjög bjartsýnn fyrir hönd íslenskra leikmanna að gera góða hluti á stuttum tíma.“

FIFPro eru alþjóðleg leikmannasamtök sem standa vörð um rétt leikmanna, hvaðanæva úr heiminum, og aðstoða þá meðal annars með samninga, tryggingar og erfið meiðsli. En hvað græða íslenskir leikmenn á því að ganga í FIFPro-samtökin?

„Með því að ganga í FIFPro verða íslensku leikmannasamtökin alþjóleg samtök og við hjá FIFPro getum hjálpað íslenskum leikmönnum að gera enn þá betur en þeir eru að gera í dag. Það eru 60.000 leikmenn í 64 löndum í samtökunum í dag og við sjáum það á þeirra þróun hversu mikið FIFPro hefur gert fyrir þá í gegnum tíðina. Réttindi leikmanna verða meiri og þeir eru með mun betra stuðningsnet í kringum sig, bæði á alþjóðlegum vettvangi og í Evrópu.“

Baer-Hoffman telur að fyrirliðar í efstu deild karla og kvenna hafi sýnt mikinn vilja til að ganga alfarið í FIFPro-samtökin á fundinum í dag.

Fyrirliðar knattspyrnuliða í efstu deild á Íslandi á fundinum í …
Fyrirliðar knattspyrnuliða í efstu deild á Íslandi á fundinum í kvöld ásamt fulltrúum FIFPro. Ljósmynd/Leikmannasamtök Íslands

Þarf að nást samstaða

„Fyrirliðar liða í efstu deild voru mættir á fundinn með okkur í dag og sýndu þar með mikinn vilja til þess að ganga í samtökin. Leikmannasamtökin á Íslandi þurfa að ná samstöðu um ákveðin málefni og ákveðinni samstöðu sín á milli og þetta er allt á réttri leið. Leikmenn á Íslandi þurfa líka að vera opnir fyrir íslensku leikmannasamtökunum og tilbúnir að ganga í samtökin. Það er ekki auðvelt að setja upp virk leikmannasamtök en á meðan leikmannasamtökin eru í höndum leikmannanna sjálfra þá er Ísland á réttri leið,“ sagði Jonas Baer-Hoffman í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert