Hannes með tilboð frá Valsmönnum

Landsliðsmarkmaðurinn Hannes Þór Halldórsson gæti verið á heimleið.
Landsliðsmarkmaðurinn Hannes Þór Halldórsson gæti verið á heimleið. AFP

Landsliðsmarkmaðurinn Hannes Þór Halldórsson hefur samþykkt samningstilboð frá Íslandsmeisturum Vals í úrvalsdeild karla í knattspyrnu en það er Fréttablaðið sem greinir frá þessu í dag. Samkvæmt Fréttablaðinu hafði KR einnig áhuga á markmanninum en Hannes vill frekar ganga til liðs við Val þar sem samningstilboð Valsmanna er betra.

Hannes hefur ekki átt fast sæti liði Qarabag í Aserbaídsjan síðan hann kom til félagsins síðasta sumar en hann gerði samning við félagið til ársins 2020. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Hannesar, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að Hannes sé með tilboð frá liðum á Íslandi, Svíþjóð og Danmörku.

„Það er ekki komið svo langt að Hannes sé að semja við Val. Hans staða gæti breyst á næstu dögum og mánuðum, það er áhugi frá Svíþjóð, Noregi og fleiri löndum en hann er samningsbundinn Qarabag í átján mánuði í viðbót og það er talsvert sem þarf að gerast til þess að hann fái að fara,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert