„Aldrei lent í slíkri óheppni“

Rúnar Már Sigurjónsson stimplaði sig inn í landsliðshópinn á nýjan …
Rúnar Már Sigurjónsson stimplaði sig inn í landsliðshópinn á nýjan leik með góðum leikjum í Þjóðadeildinni síðasta haust. Hér er hann á æfingu í Peralada í dag. mbl.is/Sindri

Rúnar Már Sigurjónsson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu á nýjan leik eftir nokkuð langan tíma frá keppni vegna meiðsla. Hann gæti verið á leið til Tyrklands eða Rússlands í sumar.

Rúnar neyddist til að fara í aðgerð vegna ökklameiðsla í október og viðurkennir að það hafi verið svekkjandi niðurstaða eftir góða frammistöðu í vináttulandsleik við Frakkland og leik við Sviss í Þjóðadeildinni.

„Það var mjög svekkjandi. Ég var búinn að vera að spila á tæpum ökkla í 5-6 vikur og gat bara ekki meira. En svo var ég bara óheppinn í jólafríinu þegar ég fékk rifu í kálfann bara við það að vera úti að hlaupa. Það var algjört rugl, ég hef bara aldrei lent í slíkri óheppni áður,“ sagði Rúnar við mbl.is í dag.

„Ég spilaði síðasta leikinn fyrir jólafrí en eftir þessi seinni meiðsli var ég svo úr leik í 8-9 vikur. Þetta tók mun lengri tíma en það átti að gera og var erfitt, ekki síst vegna þess að liðið mitt hefur líka verið í miklu basli og ég vil hjálpa því. En mér líður vel núna og vonandi er þessi kafli búinn, sem hefur verið núna síðasta hálfa árið,“ segir Rúnar, sem leikið hefur síðustu tvo leiki með liði sínu Grasshopper í Sviss.

Tyrkland og Rússland koma til greina

Rúnar segir ljóst að hann yfirgefi Sviss í sumar þegar samningur hans við Grasshopper renni út. Liðið er í fallsæti sem stendur, fjórum stigum á eftir næsta liði.

„Ég er samningslaus svo að tæknilega séð má ég semja við önnur félög frá og með janúar síðastliðnum. Það er áhugi héðan og þaðan en ekkert komið þannig. Lið hafa kannski beðið aðeins eftir því að ég byrjaði að spila aftur, en þetta ætti að fara á fullt í apríl. Ég er mjög rólegur, það kemur alltaf eitthvað upp hvort sem það er núna eða í sumar. En það er 100 prósent að ég fer frá Sviss. Það er alveg líklegt að maður fari lengra frá Íslandi en ég er núna, en það er spurning nákvæmlega í hvaða átt. Tyrkland, Rússland og fleiri svæði heilla,“ segir Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert