Aron ræðir ekki við fjölmiðla í dag

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sátu ósjaldan saman fyrir …
Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sátu ósjaldan saman fyrir svörum á blaðamannafundum þegar Heimir var landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, kemur ekki til með að ræða í dag um yfirvofandi vistaskipti sín frá Cardiff til Al Arabi í Katar.

Aron er staddur með íslenska landsliðinu hér í smábænum Peralada á Spáni, norðaustur af Barcelona, þar sem liðið kom saman í gær í aðdraganda leiksins við Andorra á föstudag, fyrsta leiksins í undankeppni EM 2020. Aron var með á æfingunni í gær en eftir hana bárust svo fregnir þess efnis að hann yrði á ný lærisveinn Heimis Hallgrímssonar í sumar, hjá Al Arabi.

Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ mun Aron ekki geta rætt við fjölmiðla í dag. Venjan er sú í kringum mótsleiki að fyrirliðinn sitji fyrir svörum ásamt landsliðsþjálfara á fréttamannafundi degi fyrir leik og má ætla að sú verði jafnframt raunin á fimmtudag, sólarhring fyrir leikinn við Andorra.

Íslenska liðið æfir í Peralada fyrir hádegi í dag og aftur á morgun, áður en það heldur til Andorra á fimmtudag. Eftir leikinn við Andorra ferðast liðið á laugardag til Parísar þar sem það mætir heimsmeisturum Frakka næstkomandi mánudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert