Ekkert aðhafst vegna ummæla Þórarins Inga

Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með Stjörnunni.
Þórarinn Ingi Valdimarsson í leik með Stjörnunni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ virðist ekkert ætla að aðhafast frekar varðandi fordómafull ummæli sem Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, lét falla í leik gegn Leikni R. í Lengjubikarnum á dögunum.

Þór­ar­inn Ingi lét for­dóma­full um­mæli falla um geðsjúk­dóma í garð Ing­ólfs Sigurssonar, sem hef­ur talað op­in­skátt um bar­áttu sína við geðsjúk­dóma. Þor­vald­ur Árna­son dóm­ari heyrði um­mæl­in og rak Þór­ar­in um­svifa­laust af velli með rautt spjald.

Á fundi aganefndar í dag var Þórarinn úrskurðaður í eins leiks bann vegna brottvísunar, en ekkert var frekar tekið fram varðandi málið.

Þar sem Þórarinn fékk rautt spjald var fyrir fram ljóst að hann færi sjálfkrafa í leikbann. Hins vegar voru uppi vangaveltur um hvort aganefnd KSÍ myndi taka málið sérstaklega fyrir þar sem ummælin gætu flokkast undir mismunun. Hefði það getað varðað enn lengra banni.

Bannið gildir aðeins í Lengjubikarnum og því mun Þórarinn Ingi ekki taka það út fyrr en keppnin hefst að nýju í byrjun næsta árs, þar sem Stjarnan spilar ekki fleiri leiki í keppninni í ár. Þórarinn Ingi baðst afsökunar á ummælum sínum og tók ábyrgð á atvikinu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert