Selfoss í leit að nýjum markmanni

Caitlyn Clem átti góða leiktíð í fyrra.
Caitlyn Clem átti góða leiktíð í fyrra. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Markmaðurinn Caitlyn Clem mun ekki spila með Selfossi í sumar vegna meiðsla sem hún varð fyrir í leik gegn Val í Lengjubikarnum um síðustu helgi. Um mikið áfall er að ræða fyrir Selfoss, en hún var einn besti markmaður Pepsi-deildar kvenna í fótbolta á síðustu leiktíð. Fotbolti.net greinir frá. 

Hún gerði tveggja ára samning við Selfoss eftir síðasta sumar, en hún hefur snúið aftur til Bandaríkjanna vegna meiðslanna. „Þetta er auðvitað skellur fyrir okkur að hún sé farin. Hún reyndist okkur gríðarlega vel á síðasta ári, hún er frábær leikmaður og ekki síst liðsmaður,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, við fotbolti.net. 

„Við erum farin á fullt í að reyna að finna markmann sem kemur í hennar stað, það verður bara að koma í ljós hver það verður. Við höldum bara ótrauð áfram og við verðum klár þegar Íslandsmótið hefst 2. maí,“ bætti Alfreð við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert