„Fengum á okkur ódýr mörk“

Birkir Már Sævarsson, Jákub Thomsen og Björn Daníel Sverrisson.
Birkir Már Sævarsson, Jákub Thomsen og Björn Daníel Sverrisson. mbl.is/Hari

„Við fengum á okkur ódýr mörk sem er kannski dæmigert fyrir lið sem eru að ströggla,“ sagði Birkir Már Sævarsson, bakvörður Vals, þegar mbl.is ræddi við hann eftir 3:2 tap gegn FH í Kaplakrika í 5. umferð Pepsí Max deildarinnar. 

„Mér fannst við sýna góða frammistöðu gegn góðu liði. Ef til vill er þetta lýsandi fyrir það þegar illa gengur. Þá finnst manni allt vera á móti manni,“ sagði Birkir en tvö fyrstu mörk FH komu eftir föst leikatriði. Vítaspyrnudómur eftir aukaspyrnu og mark eftir hornspyrnu. 

„Þetta var leikur þar sem úrslitin gátu ráðist á þess háttar atvikum. Við erum því miður ekki alveg á tánum í föstum leikatriðum og við eigum auðvitað ekki að fá á okkur mörk við þær aðstæður. En í öðru marki FH þá var þetta reyndar gott skot hjá Lennon og kannski var erfitt að koma í veg fyrir skotið.“

Spurður um hvort slæm byrjun meistarnna í deildinni sé farin að hafa áhrif á sjálfstraust leikmanna sagðist Birkir ekki skynja það. „Nei ég held ekki. Við spiluðum alla vega vel í þessum leik. Við fengum einhver hálffæri og spilið var gott. Ég held að leikmannahópurinn muni ekki láta þessa byrjun hafa áhrif á sig,“ sagði Birkir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert