„Fórum að horfa mikið niður í grasið“

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Selfossliðið var sterkara. Við vorum fínar í fyrri hálfleik en þetta var arfaslakt í seinni hálfleik,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sem tapaði 3:0 fyrir Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Kristján þurfti að gera tvær breytingar í leikhléi þar sem Edda María Birgisdóttir og Anna María Baldursdóttir fóru báðar meiddar af velli og þremur mínútum síðar höfðu Selfyssingar refsað með fyrsta markinu.

„Mér sýnist að það að þurfa að gera þessar tvær breytingar í leikhléinu hafi haft of mikil áhrif á liðið. Það var bara ekki búið að setja sig saman í upphafi seinni hálfleiks og þá fáum við á okkur þetta mark. Eftir það þá förum við að horfa mikið niður í grasið,“ sagði Kristján, sem er rétt því Stjarnan sá ekki til sólar í seinni hálfleiknum.

Tveir nýir leikmenn voru í byrjunarliði Stjörnunnar og er þeim ætlað að fríska upp á sóknarleik liðsins sem hefur verið árangurslaus síðan í maí. Camille Bassett og Shameeka Fishley eru nýkomnar í Garðabæinn.

„Mér fannst þær allt í lagi. Maður sér að það vantar leikæfinguna og líka að kynnast liðsfélögunum. Þær hafa ekkert mjög langan tíma til þess að smella en nú erum við búin að sjá hvernig þær hlaupa og hvernig þær gera hlutina þannig að ég á von á að þetta skili sér. Það er ekki alveg einfalt að koma til Íslands og spila fótbolta, agressívan fótbolta, sem þær eru ekki sumar vanar. Sjokkið kemur fyrst en svo vonandi kemur þetta,“ sagði Kristján að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert