Lengra hlaup en bara í ár

Kjartan Stefánsson.
Kjartan Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Keflvíkingar voru ákveðnari en við og ætluðu sér meira að taka þennan leik. Það var munurinn á liðunum í dag,“ sagði svekktur Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap fyrir Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. 

„Við byrjuðum rólega og þær unnu öll návígi og voru sterkari en við. Við erum meira að reyna að halda boltanum en erum kannski aðeins of „soft“. Þær spila öðruvísi fótbolta en við og það var árangursríkt í dag,“ sagði Kjartan. 

Fylkir hefur ekki unnið leik í deildinni síðan í þriðju umferð og er nú kominn í fallsæti. Kjartan segir það ekki byrjað að hafa áhrif á sálarlífið. 

„Það er alls ekki svoleiðis. Við gerum okkur grein fyrir því að við verðum ekki Íslandsmeistarar, það vita allir í deildinni. Þetta er kapphlaup tveggja liða. Ef Fylkir ætlar að komast eitthvað nálægt þeim er það lengra hlaup en bara í ár.“

„Við erum í alls konar meiðslabrasi og aðallega á vörninni. Við ætlum að mæta í næsta leik. Þessi leikur er búinn og svo er bikar á föstudaginn. Svo er rosalega stutt í næsta leik eftir það. Við ætlum að halda ótrauð áfram. Þetta er ekki búið fyrr en í september og við erum enn þá inni í öllu,“ sagði Kjartan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert