Daníel á leið til Helsingborg

Daníel Hafsteinsson í leik með KA gegn KR.
Daníel Hafsteinsson í leik með KA gegn KR. mbl.is/Hari

Knattspyrnudeild KA hefur náð samkomulagi við sænska liðið Helsingborg um kaup á Daníel Hafsteinssyni. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

Daníel hefur komið við sögu í öllum tólf leikjum KA-manna í Pepsi Max-deildinni á tímabilinu og hefur í þeim skorað eitt mark en norðanliðið hefur tapað fjórum leikjum í röð og er komið í fallsæti.

Á heimasíðu KA kemur eftirfarandi fram:

„Daníel, sem verður 20 ára seinna á árinu, hefur verið í algjöru lykilhlutverki á miðjunni í KA liðinu og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann nú þegar leikið 48 leiki fyrir liðið og gert í þeim 6 mörk.

Þá er Daníel fastamaður í U-21 árs landsliði Íslands en hann hefur alls leikið 15 leiki fyrir yngri landslið Íslands og gert í þeim 1 mark. Daníel á enn eftir að ná samkomulagi við Helsingborg en ef samningar nást er ljóst að þetta yrði gríðarlega flott skref fyrir okkar öfluga leikmann.

Á síðustu leiktíð var Daníel valinn efnilegasti leikmaður KA auk þess sem hann hlaut „Móðann“ og var þar með leikmaður ársins hjá Vinum Móða.

Fyrr á árinu seldi KA Bjarna Mark Antonsson til IK Brage í Svíþjóð og klárt mál að félagið ætlar sér að búa til fleiri atvinnumenn með sínu öfluga yngri flokkastarfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert