Höfum þurft að læra af reynslunni

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var að vonum sáttur með …
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var að vonum sáttur með sigur sinna manna í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er bara hrikalega ánægður með spilamennsku, frammistöðuna og vinnusemina í kvöld,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn FH í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

„Það er stór munur á leiknum í dag og frá leiknum í Krikanum í fyrstu umferðinni. Það er líka ákveðinn munur á liðinu þótt við séum að stórum hluta til að spila ennþá á sömu mönnum. Við höfum þurft að læra aðeins af reynslunni og við höfum gert það finnst mér. Við erum búnir að stilla okkur öðruvísi af og það er að skila okkur þessum stigum í síðustu leikjum og stigunum í dag gegn FH.“

HK-ingar eru á miklu skriði en liðið hefur nú unnið þrjá deildarleiki í röð, gegn FH, KA og Breiðabliki.

„Við erum búnir að æfa þá hluti vel sem virka fyrir okkur sem lið. Þótt við séum að leggja upp með þéttan varnarleik þá getum við líka haldið boltanum innan liðsins og við sýndum það í fyrsta markinu sem var mjög góð sókn af okkar hálfu og það skiptir í raun ekki máli hvort við séum að verjast eða með boltann, við getum gert bæði.“

HK er í áttunda sæti deildarinnar með 17 stig en fyrir mótið áttu fæstir von á því að liðið myndi ná í sautján stig yfir sumarið.

„Auðvitað kemur þetta gengi okkar okkur ekki á óvart. Við hefðum hugsanlega getað verið með fleiri stig og jafnvel færri. Við tökum þau stig sem við fáum en við erum ekki að einblína mikið á töfluna því það þýðir í raun ekkert, þetta er það jafnt. Við bara tökum einn leik fyrir í einu og vonandi fáum við jafn góðar frammistöður í næstu leikjum,“ sagði Brynjar Björn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert